Fara í efni

Námsskipulag og skólasetning MÁ

Fyrir hönd kennara og starfsfólks Menntaskólans á Ásbrú boða ég hér með alla nemendur – þar á meðal einnig nýnema - í skólasetningu annars skólaárs MÁ mánudaginn 17. ágúst kl. 9:15.

Því miður eru aðstæður þannig að við getum hvorki boðið foreldrum / forráðamönnum né öðru starfsfólki heldur en kennurum að vera viðstaddir skólasetninguna.

Allir nemendur verða að vera vakandi fyrir þeim leikreglum sem hlíta þarf af hálfu yfirvalda hvað varðar sóttvarnir. Í skólastarfi framhaldsskóla gildir sú regla að halda eins metra fjarlægð frá öðrum – hvort sem um ræðir kennarar eða aðra nemendur. Handþvottur og handsprittun eru einnig mikilvægur liður í sóttvörnum. Sprittbrúsar eru aðgengilegir á göngum, í kennslustofum og í matsal.

Stundaskrár nemenda í Innu eru kjarni skipulagsins í staðnáminu hér á Ásbrú í haust og falla því niður sérstakir teymisdagar sem auglýstir höfðu verið í skóladagatali. Raðað hefur verið upp í stofur svo hægt sé að virða eins metra regluna. Nemendur eru vinsamlegast beðnir um að gera engar breytingar á uppröðun í stofum – allar slíkar ráðstafanir þurfa að fara í gegnum kennara. Kennarar þurfa í einhverjum tilvikum að skipta hópum niður á tvær stofur og munu vera í nánum samskiptum við nemendahópa sína um allar slíkar ákvarðanir.

Enn frekar ber að nefna að bæði kennarar og nemendur þurfa að vanda sig að fylgja alveg nýjum reglum í samskiptum, sem mun án efa hafa í för með sér breytingu á því hvernig kennarar leiðbeina nemendum í kennslustofu. Mikilvægt er að sýna því þolinmæði að allir eru að æfa sig í þessum breyttu aðstæðum og taka tillit til þess. 

Ráðstafanir hafa verið gerðar í matsölu svo ekki séu of margir í matsal á sama tíma auk þess að settir hafa verið upp sprittbrúsar og aðgengi stýrt svo gengið sé inn/út í sitt hvorum enda salarins. Matsalan mun ekki bjóða upp á heitan mat, þess í stað verða nokkrir stórir kæliskápar með smurðum samlokum, pastabökkum, mjólkurdrykkjum o.þ.h. Matsalan er opin frá og með mánudegi og greitt er jafnóðum fyrir kaup. Nemendum er heimilt að koma með eigið nesti og hafa aðgengi að örbylgjuofni og samlokugrilli líkt og áður.   

Stjórn nemendaráðs mun ein hafa aðgengi að félagsaðstöðu nemenda í vetur vegna sóttvarna. Það er afar dapurt að geta ekki opnað aðstöðuna fyrir öllum því hún var tekin alveg í gegn á meðan á samkomubanni stóð á vormánuðum. Það skiptir miklu máli að við styðjum við nemendur okkar í því að byggja upp einskonar nýja gerð félagslífs og starfsfólk MÁ mun gera sitt besta til þess að hjálpa stjórn NFMÁ í hugmyndavinnu hvað það varðar. Við erum öll - nemendur, aðstandendur og starfsfólk - að glíma við breyttar aðstæður og höfum horft upp á ýmislegt félagslegt, menningarlegt og notalegt skorið burt úr lífi okkar vegna smithættu. Nú er tími til þess að huga að nýjum leiðum hvað þetta varðar og styðja unga fólkið okkar í þeirri vegferð.

Skipulag fyrsta skóladags

  1. Formleg skólasetning í matsal – ath. 1m fjarlægð á milli allra aðila – kl. 9.15
  2. Nemendur hitta umsjónarkennara í kennslustofu kl. 9.30
    Farið yfir praktísk atriði. Umsjónarkennarar senda tölvupóst með nánari upplýsingum á sína hópa.  
  3. Kennsla hefst samkvæmt stundatöflu kl. 11.00. Stofur samkvæmt stundatöflu, nema aðrar upplýsingar hafi borist í tölvupósti frá viðkomandi kennara. Nemendur koma með fartölvur tilbúnir til þess að hefja nám.

Ýmsar breytingar hafa verið í framkvæmd við undirbúning haustsins, margar þeirra verða kynntar sérstaklega í tölvupóstum næstu misserin. Hæst ber að nefna að breytt snið verður í tengslum við foreldrakynningu í haust, nemendur á öðru ári verða boðaðir í viðtal við áfangastjóra og námsráðgjafa (Skúla Frey), tekið verður í notkun nýtt hreyfirými sem var smíðað í sumar en það nefnist Fylkið, allir nemendur eiga sér umsjónarkennara í vetur og starfshópur MÁ hefur flutt skrifstofu sína á A gang til þess að vera nær nemendum.

Skoðið gjarnan stundatöflur á Innu fyrir mánudaginn og einnig www.menntaskolinn.is og/eða samfélagsmiðla hjá MÁ, en þar eru ýmsar hagnýtar upplýsingar.

Við hlökkum afar mikið til þess að taka á móti ykkur í MÁ nk. mánudag og fá aftur líf og fjör í húsið – með eins metra millibili að sjálfsögðu.

Nanna Kristjana Traustadóttir, skólameistari Menntaskólans á Ásbrú