Fara í efni

Skólasetning MÁ

Skólasetning Menntaskólans á Ásbrú var haldin þann 17. ágúst síðastliðinn. Nemendur, forráðamenn og starfsfólk mættu á sal skólans og var góð stemmning í hópnum.

Ingigerður Sæmundsdóttir forstöðumaður MÁ bauð gesti velkomna og ávarpaði hún hópinn. Í máli hennar kom fram að á þessu skólaári eru tæplega 90 nemendur skráðir í MÁ og þar af 26 nýnemar. Tuttugu og einn nemandi er nú þegar útskrifaður frá MÁ af stúdentsbraut í tölvuleikjagerð. Ingigerður hvatti nemendur til að taka eitt skref í einu og einn dag í einu á þessu fallega ferðalagi sem skólaganga í MÁ er. Hún sagði jafnframt í örstuttu máli frá skólahúsnæðinu sem á sér langa sögu sem amerískur High School sem starfaði á svæðinu til 2006. 

Þegar Ingigerður hafði lokið við að kynna starfsfók Keilis og Menntaskólans undir dynjandi lófaklappi nemenda kynnti hún til leiks framkvæmdastjóra Keilis, Nönnu Kristjönu Traustadóttur. Nanna Kristjana var fyrsti forstöðumaður Menntaskólans og ávarpaði hún nemendur og hvatti þau til að stunda námið vel og vera jafnframt góð hvort við annað. Nanna Kristjana setti formlega fjórða starfsár Menntaskólans á Ásbrú.

Að lokum skólasetningar gengu nemendur og kennarar í sínar skólastofur og kennsla hófst samkvæmt stundaskrá. Nýnemar fengu óhefðbundinn kennsludag þar sem farið var í ýmsa leiki og þeim boðin hressing í hádeginu.