Fara í efni

MÁ mætir sigurvegurum í undanúrslitum FRÍS

Frábært gengi Menntaskólans á Ásbrú í FRÍS ætlar sér engan endi að taka. Eftir frækinn sigur gegn Verzlunarskóla Íslands hefur MÁ tryggt sér sæti í undanúrslitum og mætir því Tækniskólanum næstkomandi fimmtudagskvöld, 17. mars.

Þess ber að geta að Tækniskólinn sigraði FRÍS í fyrra og má því búast við hörkuspennandi viðureign. Að sögn Brimars Jörva Guðmundssonar, keppanda og umsjónarmanns liðs MÁ, verður talsverð vinna lögð í undirbúning fyrir keppnina: „Við mætum mjög kröftugu liði strax í undanúrslitum og ætlum því að mæta til leiks með það hugarfar að um úrslit sé að ræða. Við ætlum að taka þetta sama hvað!“.

Líkt og áður verður keppt í þremur tölvuleikjum. Þeir eru skotleikurinn Counter Strike: Global Offensive, bílafótboltaleikurinn Rocket League og svo fótboltaleikurinn FIFA. Það vakti athygli í síðustu viðureign MÁ þegar FIFA lið skólans sýndi óvæntar og kærkomnar framfarir sem gefa til kynna að ekkert verður gefið eftir í næsta leik.

Keppnin hefst kl. 19:00 fimmtudaginn 17. Mars og verður sýnd á sjónvarpsstöðinni Stöð 2 eSports og verður sömuleiðis streymd á netinu á www.twitch.tv/rafithrottir. Jafnframt hefur Örgjörvinn - Nemendafélag MÁ tekið frá stóra salinn í Sambíó Keflavík til að bjóða öllum áhugasömum að koma og horfa. Tekið verður fagnandi á móti öllum þeim sem vilja styðja MÁ til sigurs.