Fara í efni

Lokaverkefni um gæludýrafóðrara

Andri Halldórsson
Andri Halldórsson
Miðvikudaginn 5. júní, kl. 11:00, flytur Halldór Andri Halldórsson kynningu á lokaverkefni sínu við tæknifræðinám Keilis sem ber heitið "Designing and Building a Prototype of a Web Controlled Pet Feeding and Monitoring System".

Miðvikudaginn 5. júní, kl. 11:00, flytur Halldór Andri Halldórsson kynningu á lokaverkefni sínu við tæknifræðinám Keilis sem ber heitið "Designing and Building a Prototype of a Web Controlled Pet Feeding and Monitoring System". 

Kynningin er öllum opin og fer fram í húsnæði Keilis stofu A1 að Grænásbraut 910, 235 Reykjanesbæ.

Verkefnið snýst um að hanna og smíða gæludýrafóðrara sem hægt er að stjórna og fylgjast með í gegnum notendaviðmót á Internetinu. Notendaviðmótið gerir gæludýraeiganda kleift að fóðra gæludýrið sitt og stilla kerfið þannig að gæludýrið sé fætt á tilteknum tímum. Einnig er hægt að fylgjast með beinni útsendingu úr vefmyndavél ásamt því að veitt er aðgangur að upplýsingum um hversu mikið gæludýrinu hefur verið gefið að borða hvern dag fyrir sig. Raspberry Pi tölva var notuð til þess að tengja kerfið við Internetið og til að hýsa vefþjón og gagnagrunn fyrir notendaviðmótið. General-purpose input output (GPIO) tengi á Raspberry Pi tölvunni voru notuð til að stjórna mótor sem skammtar mat fyrir gæludýrið. Forritið sem stjórnar GPIO tengjunum var forritað í Python og notendaviðmótið var forritað með hypertext markup language (HTML) og hypertext preprocessor (PHP).

Um höfundinn

Halldór Andri Halldórsson er fæddur árið 1985 í Keflavík. Að grunnskólanámi loknu hóf hann nám við Fjölbrautaskóla Suðurnesja og útskrifaðist þaðan af Tölvufræðibraut með viðbótarnámi til stúdentsprófs árið 2006. Árin 2006 til 2010 starfaði hann hjá Icelandair Ground Services við þjónustu flugvéla á Keflavíkurflugvelli. Frá árinu 2010 hefur Halldór stundað nám í Mekatrónískri Tæknifræði í Keili, þaðan sem hann mun útskrifast í sumar.