Fara í efni

Katrín Lilja tekur þátt í söngkeppni framhaldsskólanna fyrir MÁ

Katrín Lilja Unudóttir, nemandi í Menntaskólanum á Ásbrú (MÁ) syngur fyrir hönd skólans í söngkeppni framhaldsskólanna næstkomandi laugardag. Katrín hóf nám í MÁ skömmu eftir útskrift frá Fjölbrautaskóla Suðurnesja. Að sögn Katrínar var hún snögg að sækja um þátttöku í söngkeppninni þegar prufur voru auglýstar fyrir keppnina enda nýtir hún hvert tækifæri til að syngja.

Það var Örgjörvinn - Nemendafélag MÁ sem stóð fyrir prufunum og skipaði dómnefnd bæði fulltrúa nemendaráðs og kennara. Á meðal fulltrúa kennara var Sverrir Bergmann, sem sjálfur sigraði söngkeppni framhaldsskólanna á sínum tíma. Það var að lokum einróma álit dómnefndar að Katrín yrði fulltrúi skólans í ár.

Að sögn Katrínar er hún afar listræn og nýtur þess að gera eitthvað skapandi við hvert tækifæri. „Ég hef verið að syngja í mjög langan tíma og alltaf haft mikinn áhuga á söng yfir höfuð enda hefur það fylgt fjölskyldunni minni mikið.“ Katrín hefur einnig gaman af textasmíði og semur sjálf. Lagið sem hún kemur til með að flytja á laugardaginn er hið sígilda Would you be so kind? Eftir Dodie. „Mig langaði að velja þetta lag því mér þykir það svo þægilegt, sérstaklega því ég syng það oft fyrir kærustuna mína“. Þrátt fyrir mikinn áhuga á söng segist Katrín ekki ætla að verða söngkona í framtíðinni. „Líklegast ekki, þetta er meira eitthvað sem mér þykir skemmtilegt og í rauninni meira eins og áhugamál". Það sem heillaði hana mest við að taka þátt var að prófa eitthvað nýtt. Hún er sérstaklega spennt fyrir að sjá og upplifa undirbúninginn baksviðs á keppninni.

Katrín stígur á svið laugardaginn 1. apríl næstkomandi og fylgjast má með í beinni útsendingu á vef Sambands íslenskra framhaldsskólanema. Keppnin hefst stundvíslega klukkan 21:00.