Fara í efni

Fyrirlestur um eldsneyti framtíðar

Jón Björn Skúlason
Jón Björn Skúlason
Jón Björn Skúlason, framkvæmdastjóri Íslenskrar NýOrku, verður með fyrirlestur um endurnýjanlegra orkugjafa sem eldsneyti framtíðar 23. apríl næstkomandi.

Tæknifræðinám Keilis býður upp á opinn hádegisfyrirlestur þriðjudaginn 23. apríl næstkomandi. Þar mun Jón Björn Skúlason, framkvæmdastjóri Íslenskrar NýOrku, fjalla um endurnýjanlegar orkulindir sem eldsneyti framtíðar.

Notkun á endurnýjanlegri orku í samgöngum á Íslandi hefur miðað hægt. Opinberir aðilar hafa þegar tekið mikilvæg skref en markaðurinn hefur lítið sem ekkert tekið við sér en þó hefur nokkur ávinningur orðið varðandi metan. Í fyrirlestrinum verður stefnumótun stjórnvalda kynnt og hvernig staðan er á Íslandi varðandi nýtingu á innlendu eldsneyti. Einnig verður fjallað um hvernig framtíðarþróun gæti litið út varðandi aukna nýtingu á innlendri orku sem elsneyti í samgöngum og hvort frekari opinberar aðgerðir eru nauðsynlegar.

Íslensk NýOrka býr yfir einstakri þekkingu á vistvænum orkuberum og sinnir nú fyrst og fremst rannsóknar og ráðgjafarverkefnum á því sviði. Ljóst er að orkuskipti í samgöngum munu taka talsverðan tíma (áratugi) en mikilvægt er að undirbúningur fyrir þau verði gerð með sem bestri þekkingu. Framtíðin er björt en ljóst er að enginn einn orkuberi mun leysa öll vandamálin og því líklegt að flóra orkubera fyrir samgöngur verði fjölbreytari en verið hefur á síðustu öld. Vetni, rafgeymar, metan og lífdísill virðast vera það eldneyti sem líklegast er til að taka við af jarðefndaeldsneyti en bílaframleiðendur og markaðurinn mun hafa talsverð áhrif á hvaða orkuberar nái mestri útbreiðslu.

Fyrirlesturinn er öllum opinn og fer fram 23. apríl kl 12 - 13 í aðalbyggingu Keilis á Ásbrú.