Fara í efni

Erindi frá frumkvöðli í hátækniiðnaði fyrir fullum sal

Á miðvikudaginn síðastliðinn fengum við frábæra heimsókn í höfuðstöðvar Keilis á Ásbrú þegar Gísli Konráðsson kom til okkar. Gísli er svo sannarlega mikill frumkvöðull í skapandi hátækniiðnaði og hélt hann opið erindi fyrir starfsfólk og nemendur Menntaskólans á Ásbrú. Nemendum efri bekkja Háaleitisskóla og Njarðvíkurskóla var einnig boðið að sitja erindið og var frábær mæting þar sem nemendur hlustuðu af miklum áhuga.

Gísli talar af mikilli reynslu og gat miðlað sinni sögu á skemmtilegan hátt úr tölvuleikjabransanum þar sem hann fór yfir feril sinn, sigra og skakkaföll. Gísli, sem kemur úr Njarðvík, hefur þurft að leggja mikið á sig til þess að komast á þann stað sem hann er á í dag, en fyrir vikið upplifað mikil ævintýri víðsvegar um heiminn, og unnið við það sem honum þykir skemmtilegast.

Gísli er einn af fjórum stofnendum íslenska tölvuleikjafyrirtækisins Arctic Theory og hafa stofnendurnir fjórir komið að nokkrum metnaðarfyllstu tölvuleikjum á síðustu áratugum, þar á meðal EVE Online og The Sims ásamt fleirum. Einnig hafa þeir tekið þátt í uppbyggingu stærstu tölvuleikjafyrirtækja á Íslandi í gegnum árin og má þar nefna CCP Games, 1939 Games, Parity Games og Directive Games.

Arctic Theory er í miðri þróun á fyrsta fjölspilunarleik sínum ásamt því að búa til grunn fyrir nýja tegund af samfélagsheimum. Leikurinn verður aðgengilegur á næstu mánuðum og er innblásinn af íslenskri náttúru þar sem náttúruöfl hafa mikið að segja. Mikil áhersla er lögð á samvinnu og samfélag frekar en samkeppni og vinna spilarar saman að uppbyggingu ýmis konar innviða í gífurstórum leikjaheimi. Tæknin sem þeir hafa byggt upp í kringum leikinn er farin að vekja athygli erlendis og hefur fyrirtækið farið ört stækkandi.

Það eru svo sannarlega spennandi tímar hjá Arctic Theory og íslenska tölvuleikjabransanum í heild sinni, sem hefur verið í örum vexti síðastliðin ár.

Við þökkum Gísla kærlega fyrir komuna og óskum honum áfram góðs gengis.