Fara í efni

Eldsneytisframleiðsla úr lífmassa

Föstudaginn 7. júní kl. 9:30 flytur Þorgeir Þorbjarnarson kynningu á lokaverkefni sínu við tæknifræðinám Keilis um eldsneytisframleiðslu úr lífmassa.

Föstudaginn 7. júní kl. 9:30 flytur Þorgeir Þorbjarnarson kynningu á lokaverkefni sínu við tæknifræðinám Keilis. Verkefnið ber heitið „Eldsneytisframleiðsla úr lífmassa með pýrólýsu og vetnun. Hönnun tilraunaverksmiðju og hagkvæmniathugun“. Kynningin er öllum opin og fer fram í húsnæði Keilis stofu A1 að Grænásbraut 910, 235 Reykjanesbæ.

Verkefnið

Með hækkandi verði á olíu og aukinni vitundarvakningu í umhverfismálum er nú í síauknum mæli horft til vistvænni valkosta en jarðefnaeldsneytis. Einn þessara valkosta er eldsneytisframleiðsla úr lífmassa. Í þessu verkefni er er fjallað um framleiðsla olíu með varmafræðilegu niðurbroti (pýrólýsu) á lífmassa ásamt vetnismeðferð til að bæta eiginleika olíunnar. Í verkefninu er gerð fræðileg samantekt á pýrólýsu og vetnismeðferð og búnaður til tilraunaframleiðslu hannaður. Gerð var hagkvæmniathugun fyrir stóra verksmiðju á Íslandi sem notar pýrólýsu og vetnismeðferð til framleiðslu bensíns og díselolíu. Niðurstöður hennar benda til þess að framleiðslan geti verið fýsilegur kostur sem vert er að rannsaka frekar.

Um höfundinn

Þorgeir Þorbjarnarson er fæddur í Reykjavík árið 1979 og ólst upp í Kópavogi. Hann er kvæntur Guðmundu Hörpu  Júlíusdóttur og eiga þau eitt barn saman, en fyrir átti Harpa þrjú börn. Eftir grunnskóla hóf hann nám við  Menntaskólann í Kópavogi en útskrifaðist ekki þaðan. Árið 1998 fór hann út á vinnumarkaðinn og starfaði við jarðvegsframkvæmdir sem vélamaður og vörubílstjóri til ársins 2006 auk þess að stunda nám við Iðnskólann í Hafnarfirði þaðan sem hann útskrifaðist árið 2005 af rennismíðabraut. Þorgeir lauk sveinsprófi í rennismíði árið 2007, hann starfaði sem rennismiður hjá Vélvík ehf til ársins 2009 þegar hann  hóf nám við háskólabrú Keilis þaðan sem hann útskrifaðist af verk og raunvísindabraut árið 2010. Sama ár hóf hann svo nám í orku og umhverfistæknifræði hjá Keili þaðan sem hann mun útskrifast í vor.