Fara í efni

Nemendur úr dönskum skóla heimsóttu MÁ

Þriðjudaginn 13. september síðastliðinn tók Menntaskólinn á Ásbrú á móti 51 nemendum og þremur kennurum frá Thisted Gymnasium í Danmörku. Um er að ræða verkefni á vegum Erasmus+ þar sem markmiðið var að nemendur þessa skóla fengju að kynnast íslenskum framhaldsskóla og jafnöldrum þeirra hérlendis.

Nemendum var boðið að koma í enskutíma hjá þriðja árs nemendum MÁ og lærðu að skrifa fréttagreinar á ensku. Í anda vendináms fengu nemendur beggja skóla stutt myndband og greinar til að skoða fyrir tíma. Í tímanum sjálfum fóru nemendur í hópa og unnu saman fjölbreytt verkefni.

Nemendur MÁ hófu í raun samskipti við danska kollega sína viku áður með því að skiptast á tölvupóstum, líkt og þeim hafði verið kennt að gera í enskutíma. Samskiptin gengu svo vel að nemendur MÁ buðu dönskum félögum sínum í skotbolta fyrir sjálfa kennslustundina, öllum til mikillar ánægju.

Heimsóknin gekk ljómandi vel í alla staði. Undir lok tímans fóru nemendur saman í matsal skólans og þökkuðu nemendur Thisted Gymnasium fyrir móttökurnar með fallegum söng.