Fara í efni

Útskrift Menntaskólans á Ásbrú í janúar 2023

Föstudaginn 13. janúar næstkomandi fer fram þriðja útskrift Menntaskólans á Ásbrú. MÁ hóf starfsemi haustið 2019 þegar fyrstu nemendur skólans hófu nám á stúdentsbraut í tölvuleikjagerð. Stúdentsbrautin er skipulögð sem þriggja ára nám þaðan sem nemendur útskrifast með staðgóða þekkingu í ýmsu sem tengist tölvuleikjagerð og fleiri skapandi greinum. Námið byggir á hagnýtum verkefnum með sterkri tengingu við atvinnulífið þar sem lögð er áhersla á færni til framtíðar, nútíma kennsluhætti og vinnuaðstöðu í sérklassa.

Áhugi meðal ungs fólks á menntun til starfa í skapandi greinum er mikill og hefur ásókn í skólann verið mjög góð frá upphafi. Tölvuleikjagerð hefur vaxið mjög hratt á Íslandi undanfarin ár og hefur skortur verið á vel menntuðu starfsfólki í greininni. Menntaskólinn á Ásbrú hefur frá upphafi haft náin tengsl við fyrirtæki á þessu sviði og einnig við Samtök leikjaframleiðenda á Íslandi (IGI). Skólinn hefur fengið mikinn stuðning og ráðgjöf frá samstarfsfyrirtækjum í gegnum hin ýmsu samstarfsverkefni.

Útskrift Menntaskólans á Ásbrú fer fram í Hljómahöll í Reykjanesbæ kl. 15.00 þar sem Keilir mun útskrifa nemendur úr MÁ, Háskólabrú og Heilsuakademíu. Athöfnin er opin bæði útskriftarnemendum og gestum þeirra og getur hver útskriftarnemi tekið með sér 3-4 gesti í athöfnina.