Fara í efni

MÁ boðar til málþings um rafræn samskipti

Næstkomandi mánudag, þann 14. nóvember, verður Menntaskólinn á Ásbrú með málþing um rafræn samskipti. Hópurinn sem stendur að málþinginu samanstendur af nemendum og starfsfólki Keilis (MÁ).

Umræðan um alvarlegar afleiðingar eineltis og ofbeldis á netinu er þörf og vill hópurinn leggja sitt af mörkum til að opna þá umræðu innan MÁ og víðar.

Hópurinn fékk lögregluna á Suðurnesjum til liðs við verkefnið og mun Alda Hrönn Jóhannsdóttir, yfirlögfræðingur lögreglunnar á Suðurnesjum, ásamt Eiríki Guðna Ásgeirssyni, rannsóknarlögreglumanni og sérfræðingi í tölvurannsóknum, flytja erindi sem þau kalla: „Fótspor inn í framtíðina – hvað geri ég og hvað skil ég eftir“.

Náms- og starfsráðgjöfum ásamt forvarnarfulltrúum í skólasamfélaginu á Suðurnesjum var boðið að koma í Keili og hlusta á erindið og vonumst við innilega eftir góðum undirtektum, enda brýnt málefni.

Málþingið verður sett kl. 11 af Ingigerði Sæmundsdóttir, forstöðumanni MÁ, og mun síðan Darel Jens, formaður Örgjörvans – nemendafélags MÁ, segja nokkur orð áður en Alda Hrönn og Eiríkur Guðni flytja sitt erindi fyrir hönd lögreglunnar á Suðurnesjum. Eftir hádegi munu síðan Ingigerður og Geir Finnsson, fundarstjóri, leiða vinnuhópa og umræður.