Fara í efni

Geðlestin heimsótti nemendur MÁ

Nemendur MÁ fengu góða gesti í síðustu viku þegar fulltrúar Geðlestarinnar mættu með fræðslu og skemmtun. Geðlestin var kynnt og einn einstaklingur sagði sína reynslusögu af eigin geðrækt. Í lok fræðslunnar tróð Emmsjé Gauti upp og var honum vel tekið.

Geðfræðslan er fyrir nemendur í efri bekkjum grunn- og framhaldsskóla og byggir á þeirri staðreynd að við búum öll við geð rétt eins og við erum með hjarta. „Á lífsleiðinni er mjög líklegt að við lendum í mótvind og þurfum jafnvel að leita okkur aðstoðar. Öflug geðrækt frá unga aldri út lífið er besta ráðið til að takast á við þær áskoranir sem lífið færir okkur segir á heimasíðu Geðlestarinnar. Geðlestin er samstarfsverkefni Geðhjálpar og Hjálparsíma Rauða krossins 1717 og er styrkt af félags- og heilbrigðisráðuneytunum.

Fulltrúar Geðlestarinnar fara um landið, ræða við ungt fólk um geðheilsu og hvernig best sé að rækta hana og vernda. Þau ræða um að lífið býður upp á allskonar áskoranir og stundum þarf að leita aðstoðar við verkefnum lífsins. Þau vilja koma því til skila til unga fólksins að það sé eðlilegasti hlutur í heimi að biðja um hjálp.

Nemendur eru hvattir til þess að tjá tilfinningar sínar, spyrja spurninga og ræða við aðstandendur eða kennara/námsráðgjafa um það sem gengur á í amstri dagsins.