Fara í efni

Dúx stefnir á að vinna við 2D/3D animation

Á dögunum fór fram útskrift hjá fyrsta útskriftarhóp Menntaskólans á Ásbrú, eina skóla landsins sem býður upp á stúdentsbraut í tölvuleikjagerð. Menntaskólinn á Ásbrú (MÁ) er einn af fjórum skólum Keilis, miðstöðvar vísinda, fræða og atvinnulífs og hefur frá árinu 2019 boðið nemendum að stunda nám á metnaðarfullri stúdentsbraut í tölvuleikjagerð.

Viktoría Rose Wagner var dúx skólans með 9,67 í meðaleinkunn og segir aðspurð ekki hafa búist við því að dúxa þrátt fyrir að vita að henni hafi gengið vel.

Spurð út í lykilinn að velgengni hennar í náminu segir Viktoría að góður agi og mikil skipulagning hafi hjálpað henni hvað mest. Einnig gaf hún sér góðan tíma í öll verkefni sem fylgdu náminu sem hafi skilað henni þessum árangri og bætir við að ekki hafi alla tíð gengið svona vel að læra: „fyrstu árin í grunnskóla gengu ekki jafn vel en jafnt og þétt hef ég verið að bæta mig“.

En af hverju stúdentspróf í tölvuleikjagerð?

Aðspurð hvað fékk hana til að stunda nám á stúdentsbraut í tölvuleikjagerð við MÁ segist Viktoría alltaf hafa haft mikinn áhuga á stafrænni hönnun, tölvuleikjum og að teikna. „Ég hef alltaf haft mikinn áhuga á að teikna og hef verið að teikna síðan ég man eftir mér. Ég teikna aðallega á pappír en undanfarið hef ég líka verið að teikna í spjaldtölvu. Ég hef líka mikinn áhuga á tölvuleikjum og þá helst ævintýraleikjum. Ég hef líka gaman af því að lesa og þá helst ævintýra bækur og Manga bækur.“ Því lá beinast við að sækja um í Menntaskólann á Ásbrú eftir 10. bekk þar sem brautin og skólinn heilluðu. „Þetta þægilega umhverfi, aðbúnaður og hvernig skólinn tengir grunnfög við tölvuleikjagerð eins og þegar við gerðum tölvuleik í tengslum við goðafræðina í íslensku. Skólinn býður líka upp á skemmtilega tengingu við atvinnulífið þar sem við unnum verkefni í samvinnu við tölvuleikjafyrirtæki hér á Íslandi,“ segir Viktoría og bætir við að kennararnir hafi líka allir verið mjög þægilegir í samskiptum, studdu vel við bakið á manni, hvöttu mann áfram og voru duglegir að gefa hrós sem hjálpaði manni mikið á námstímanum.

Framtíðardraumur að vinna við 2D/3D animation

Viktoría stefnir á að að vinna við 2D/3D animation „hvort sem það verður í tölvuleikjagerð eða teiknimyndagerð“. Í haust er svo stefnan sett á Margmiðlunarskólann til að læra stafræna hönnun. „Þar get ég nýtt mér margt af því sem ég lærði í MÁ“ segir Viktoría að lokum.

Við óskum Viktoríu innilega til hamingju með stúdentsprófið og þennan frábæra árangur og óskum henni velfarnaðar um ókomna tíð.