Fara í efni

Alaska Lúpína notuð til að hreinsa mengaðan jarðveg

Ester Marit Arnbjörnsdóttir
Ester Marit Arnbjörnsdóttir
Föstudaginn 7. júní kl. 13:00 flytur Ester Marit Arnbjörnsdóttir kynningu á lokaverkefni sínu í tæknifræði um notkun á Alaska Lúpínu til að brjóta niður mengunarefni.

Föstudaginn 7. júní kl 13:00 flytur Ester Marit Arnbjörnsdóttir kynningu á lokaverkefni sínu við tæknifræðinám Keilis. Verkefnið ber heitið "Bioremediation of PCB contaminated soil: Alaska Lupin in collaboration with nitrogen fixing bacteria". Kynningin er öllum opin og fer fram í húsnæði Keilis stofu A1 að Grænásbraut 910, 235 Reykjanesbæ. 

Tilgangur verkefnisins var að kanna hvort hægt er að nota plöntuna Alaska Lúpínu til að brjóta niður mengunarefnið PCB í menguðum jarðvegi. PCB er manngert lífrænt efni sem ekki finnst í náttúrunni nema sem mengunarefni. Efnið hefur mjög skaðleg áhrif á umhverfið auk þess sem fjölda ára tekur að brjóta það niður í náttúrunni.

Sýni voru tekin samkvæmt leiðbeingum frá Umhverfisverndarstofnun Bandaríkjanna (US Environmental Protection Agency) og síðan meðhöndluð; þ.e. hreinsuð og styrkt fyrir greiningu. Greiningin var gerð í gashreinsitæki með sérstökum búnaði til greiningar á rafeindum. Lúpinurnar voru ræktaðar og settar í mengaðan jarðveg í níu daga, en þá voru aftur tekin sýni og þau hreinsuð, styrkt og greind. Niðurstöður rannsóknarinnar benda til þess að hægt sé að nota Lúpínu til að brjóta niður PCB mengun í jarðvegi.

Um höfundinn

Ester hóf nám árið 2009 í Menntastoðum, þaðan lá leiðin á Verk og raunvísindadeild Háskólabrúar Keilis fram til haustsins 2010. Haustið 2010 hóf hún nám í orku- og umhverfistæknifræði hjá Keili, þaðan sem hún útskrifast nú í vor. Í framhaldinu stefnir Ester á nám í Umhverfisfræði í Ástralíu árið 2014.