Fara í efni

Ávarp skólameistara

Skólasetning 17. ágúst, 2020. 

Kæru nemendur og kennarar.

Velkomin á skólasetningu annars skólaárs Menntaskólans á Ásbrú.

Í fyrra haust ræddi ég við skólasetningu um að unga fólkið okkar sjái betur framtíðar tækifærin í því að efla þekkingu á sviði tölvuleikjagerðar heldur en margir þeirra sem eldri eru. Ég vissi þá þegar að þið væruð sérstaklega hugaður og magnaður nemendahópur. Síðast liðinn vetur hafið þið margstaðfest þetta! Mig óraði þó ekki fyrir því - á þeim tíma - að þessi hópur sem hér er, yrði einn mikilvægasti nemendahópur landsins áður en skólaárið kláraðist. Út af ykkar sérhæfingu eruð þið einstök og einstaklega mikilvæg. Við komumst ekki hjá því að ávarpa heimsfaraldurinn og því er það léttir í öllum hörmungunum sem honum fylgja að geta fundið einhvern jákvæðan vinkil. Þessi vinkill tengist ykkar framtíð – og á margan hátt framtíð hugverkaiðnaðar á Íslandi. Tölvuleikjagerð blómstrar á tímum þar sem ríkja samkomubönn með öllum sínum skilyrðum. Þetta er sagt með það í huga að tölvuleikjagerð á heimsvísu var í góðum málum fyrir faraldur! Þetta veit ég að þið vitið kæru nemendur. Það sem skiptir máli núna er að þið takið námið ykkar hér föstum tökum. Stór hluti ykkar sem hér sitjið útskrifist eftir bara tvö ár – 24 mánuði. Engar faggreinar mega verða út undan, en að því sögðu, þá vil ég aldrei sjá að þið sláið slöku við í sérhæfingunni ykkar, ég get lofað ykkur því að það mun margborga sig að þið vandið þar til verka.

Við búum við breyttan veruleika – mér leiðist að bera þessi þungu skilaboð, en ég vil heldur eiga við ykkur heiðarlegt samtal en að láta eins og þessar vandasömu leikreglur sem við þurfum að fylgja hér í húsi ljúki á næstu vikum. Sannleikurinn er sá að við vitum ekki hvenær eða hvort við snúum aftur til nákvæmlega sama veruleika og við þekktum áður. Í fyrsta skipti á ævi flestra þeirra sem standa hér inni eru ráðamenn og yfirvöld í stöðugri óvissu og stöðugt að senda uppfærð fyrirmæli. Það getur verið óþægilegt fyrir samfélagsþegna. Við sem kunnum vel við rútínu og fyrirsjáanleika líður verr í svoleiðis aðstæðum.Það erokkar sjálfra að taka ábyrgð á því að setja á þennan veruleika jákvætt spin - og finna gleðina. Við höfum nú, ólíkt því hvernig aðstæður voru í samkomubanninu í vor, fengið tækifæri frá yfirvöldum til þess að koma í skólann okkar. Við getum spjallað við kennarana augliti til auglitis, hitt félagana og stundað námið okkar hér úr sófanum í heimastofunni okkar – ekki bara sófanum heima í stofu. Verum þakklát fyrir þetta. Verum þakklát fyrir það að fá að hittast og efla hópinn okkar þrátt fyrir heimsfaraldur. Hugsum út fyrir rammann og finnum leiðir til þess að gleðjast og halda í samfélagslegar hefðir eins og hægt er – og finnum einnig nýjar leiðir til þessa. Í Nemendafélagi Menntaskólans á Ásbrú hefur verið unnið að hugmyndum um félagslíf hópsins. Gamlir nemendur þurfa að finna nýnemana og taka þá með í umræðuna um það hvernig við höldum áfram uppbyggingu félagslífs í núverandi ástandi. Hér er smæð okkar skóla okkur í hag. Gerum ekki lítið úr tilraunum til þess að efla andann og gleðjast þó þær séu öðruvísi en það sem við höfum þekkt. Gefum nýjum tegundum af skemmtunum og afþreyingu tækifæri. Námið okkar hér í Menntaskólanum á Ásbrú er einmitt afsprengi framsýnnar hugsunar - ný tegund af námi og sannarlega óhefðbundið vinnufyrirkomulag. Og þið sem hér sitjið völduð að koma hingað og fara nýjar leiðir. Ef einhverjir eru rétta fólkið til þess að hugsa út fyrir rammann, þá eru það nemendur Menntaskólans á Ásbrú.

Atvinnulífið hefur tekið Menntaskólanum á Ásbrú alveg sérstaklega vel. Við leggjum mikla áherslu á að námið hjá okkur sé í góðum tengslum við sérfræðinga í bransanum. Það er afar jákvætt að hugverkaiðnaðurinn fylgist með þróun námsins hjá okkur og hafi áhuga á því að vera okkur innan handar á fjölbreyttan hátt. Við viljum mennta nemendur sem upplifa það á eigin skinni að finnast þau búa yfir þekkingu og færni til þess að takast á við raunhæf verkefni í tölvuleikjagerð að loknu námi í MÁ. Í lok síðustu vorannar unnu nemendur verkefni fyrir Isavia og síðast í sumar undirrituðum við samstarfssamning við Solid Clouds um verklega þjálfun nemenda úr MÁ. Þessi verkefni eru gott dæmi um að í MÁ er kennslustofan í raunverulegum tengslum við atvinnulífið og við vílum það ekki fyrir okkur að prófa okkur áfram með fjölbreytt raunhæf verkefni. Við erum sannfærð um að tengingin við atvinnulífið sé ekki bara að bæta nýrri vídd við námsferil nemenda hjá okkur heldur skilji eftir sig ómetanlega reynslu.

Það líta margir svo á að skóli sé vinna. Ef einhver í salnum bjóst við því að fá útskriftarskírteinið afhent án vinnuframlags þá er núna tækifærið til þess að aðlaga og uppfæra þær væntingar. Það er í stefnu Menntaskólans á Ásbrú að efla ábyrgðartilfinningu nemenda gagnvart sínum skyldum. Til þess að það gerist farsællega þarf m.a. að efla skipulagsfærni, samstarfshæfni og framtakssemi hvers og eins. Kennarar MÁ eru klár og metnaðarfullur hópur sem hefur nú í heilan skólavetur rýnt í störf sín í hvívetna. Fínpússað aðferðir og eflt sína sýn. Þau eru leiðtogarnir ykkar. Þau er samstarfsfólkið ykkar. Þeim ber að setja upp ramma og markmið, ögra ykkar færni og leiðbeina ykkur þegar þið rekist á hindranir. Skiljið úreltar gamaldags hugmyndir um kennslu og nám eftir við innganginn. Búist við því að ferli ykkar í gegnum námið í MÁ verði áskorun, styðjið hvert annað og gerið ykkar allra besta, alltaf.

Kæru nýnemar – ég býð ykkur sérstaklega velkomin í hópinn. Ég lýsi hér með skólanum settum skólaárið 2020-2021.

Skólameistari
Nanna Kristjana