Fara í efni

Valgreinar

Hér eru birtar áfangalýsingar fyrir valgreinar MÁ vorönn 2023. Áfangalýsingarnar eru birtar með fyrirvara um breytingar.

Valáfangar eru sumir í staðnámi og aðrir í fjarnámi. Engu að síður er gert ráð fyrir vinnustundum vegna valáfanga í stundatöflu nemenda og nemendum býðst að nýta vinnuaðstöðu á Ásbrú þær stundir. Einnig eru umsjónartímar m.a.hugsaðir  fyrir þá vinnu. Fjarnámsáfangarnir eru skipulagðir þannig að þeir spanni heila önn, en staðnámsáfangarnir eru teknir annaðhvort í fyrri lotu eða seinni lotu.

Athugið að sumir áfangar eru með forkröfur, sem þýðir að ljúka þarf ákveðnum áföngum áður en viðkomandi áfangi er valinn. Þegar staðnámsáfangar eru valdir er ekki tryggt að það passi í töflu hjá öllum. Því er gott að velja fjarnámsáfanga til vara.

Valáfangar í boði á vorönn 2023

Afbrotafræði (FÉLA2AB05)

Fjarnám | Haust eða vorönn

Áfanginn er inngangur að afbrotafræði. Farið er í sögu greinarinnar og nokkrum helstu hugtökum og kenningum gerð skil. Áhersla er lögð á afbrotahegðun og refsingar m.a. í tengslum við lagskiptingu og menningarkima. Lögð er áhersla á að nemendur geti kafað undir yfirborðið og greint á gagnrýninn hátt þau mál sem efst eru á baugi í samfélagsumræðunni hverju sinni með tilliti til gilda og viðmiða samfélagsins en umfjöllun um afbrot og afbrotamenn endurspeglar ríkjandi siðferðisgildi í samfélaginu.

Bókfærsla (BÓKF1IB05)

Fjarnám | Haust eða vorönn

Í áfanganum er farið í grunninn á bókhaldi og meginreglur tvíhliða bókhalds. Fjallað er um grundvallarhugtökin eignir, skuldir, gjöld og tekjur. Lögð er áhersla á að nemendur öðlist færni í að annast almennar færslur í dagbók, hafi skilning á uppgjöri og geti sett fram efnahags- og rekstrarreikning. Nemendur fá innsýn í notkun flestra reikninga sem telja má til grunnreikninga í fjárhagsbókhaldi. Nemendum er auk þess gerð grein fyrir tilgangi bókhalds og kynnt helstu lög um bókhald og virðisaukaskatt.

Fjármálalæsi (FJÁR1FL05)

Fjarnám | Haust eða vorönn

Í áfanganum er stefnt að því að gera nemendur meðvitaða um fjármál, peninga og hlutverk þeirra í daglegu lífi. Farið er í laun og frádrátt og hvert hann fer, rekstur heimilis og bíls, notkun greiðslukorta, gengi og gjaldeyri og fleira sem snertir fjárhagslegar skuldbindingar sem nemendur gætu þurft að takast á hendur. Einnig verður farið í heimilisbókhald og mikilvægi þess að halda utan um tekjur og gjöld.

Heilbrigðisfræði (HBFR1HH05)

Fjarnám | Haust eða vorönn

Áfanginn fjallar um heilbrigði og heilsu. Áhersla verður lögð á heilsu og hin ýmsu heilsufarstengdu vandamál sem þekkjast í dag. Skilgreint verður nánar hugtakið um heilbrigði. Farið verður yfir sögulega þróun heilbrigðisfræðinnar. Sérstaklega verður farið yfir forvarnir og mikilvægi þeirra gagnvart heilsu og sjúkdómum.

Kvikmyndasaga (SAGA2KM05)

Fjarnám | Haust eða vorönn

Í áfanganum verður fjallað um sögu kvikmyndanna, frá fyrstu verkum frumkvöðlanna til dagsins í dag. Fjallað verður um helstu tímabil, strauma og stefnur, þekkta framleiðendur, leikstjóra, leikara og leikkonur. Einnig verður fjallað um kvikmyndina sem áróðurstæki og sem leið til að skrá sögu okkar. Áfanganum er ætlað að efla læsi nemenda á kvikmyndir, að þeir þekki til þróunnar kvikmyndarinnar sem listforms og sem afþreyingariðnaðar og að helstu áhrifavaldar séu þeim kunnir. Áfanganum er einnig ætlað að efla gagnrýna og skapandi hugsun og almenna þekkingu á kvikmyndaiðnaðinum.

Líffæra- og lífeðlisfræði 1 (LÍOL2BV05)

Fjarnám | Haust eða vorönn

Á námskeiðinu verður farið yfir grundvallar atriði hvað varðar líkamann og hvernig hann starfar. Atriði sem farið verður yfir eru: skipulag líkamans og notkun á latneskum orðum yfir áttir og skipulag líkamans, farið yfir efni líkamans, flutningur á efnum milli frumna, vefjagerðir líkamans og starfsemi þeirra.

Líffæra- og lífeðlisfræði 2 (LÍOL2IL05)

Fjarnám | Haust eða vorönn

Í áfanganum verður farið yfir helstu grundvallaratriði í líffæra- og lífeðlisfræði. Farið verður yfir eftirfarandi líkamskerfi: - Hringrásarkerfið (samsetning blóðsins, uppbygging og starfsemi hjartans og hringrásir blóðs og vessa), - Öndunarkerfið (bygging og hlutverk öndunarfæranna, stjórn öndunar og loftskipti í lungum og vefjum), - Meltingarkerfið (bygging og hlutverk meltingarfæranna og melting orkuefnanna), - Þvagfærakerfið (bygging og hlutverk þvagfæranna, ferill þvagmyndunar og stilling þvagmagns) - Æxlunarkerfið (bygging og hlutverk æxlunarfæranna, samsetning sæðis og þroskaferill eggfrumu).

Næringarfræði (NÆRI1GR05)

Fjarnám | Haust eða vorönn

Í áfanganum er fjallað um orku- og næringarefni líkamans. Nemendur kynna sér vel almennar ráðleggingar um mataræði og hvernig þær eru notaðar. Fjallað verður um alla fæðuflokkana, næringarinnihald þeirra og ráðleggingar tengdar þeim. Nemendur læra að lesa innihaldslýsingar og næringarinnihald matvæla. 

Sálfræði grunnur (SÁLF2AA05)

Fjarnám | Haust eða vorönn 

Í áfanganum er sálfræðin kynnt sem fræðigrein, upphaf hennar, eðli, saga, þróun, tengsl við aðrar fræðigreinar, helstu stefnur og grunnhugtök. Fjallað er um starfssvið sálfræðinga og helstu undirgreinar. Fjallað er almennt um mannlegt eðli, um sjálfsmynd og um samspil hugsunar, athafna og tilfinninga. Sérstaklega er fjallað um námssálarfræði bæði á fræðilegan og hagnýtan hátt og nemendur læra um mismunandi tegundir náms, minnisaðferðir og námsörðugleika. Nemendur kynnast rannsóknaraðferðum sálfræðinnar bæði bóklega og verklega. 

Sýklafræði (SÝKL2SS05)

Fjarnám | Haust eða vorönn

Í áfanganum er fjallað um mismunandi tegundir og sérkenni sýkla. Fjallað er um byggingu sýkla, umhverfisþætti er móta útbreiðslu sýkla, smitleiðir og helstu smitsjúkdóma. Farið er í grundvallaratriði í sértækum og almennum vörnum líkamans gegn sýklum og fjallað um hlutverk ónæmiskerfisins. Sýklalyf fá nokkra umfjöllun. Fjallað er um smitgát og reglugerðir um smitvarnir. Nemendur munu vinna sjálfstætt fjölbreytileg verkefni í áfanganum.

Skyndihjálp (SKYN2SÞ01) | Fjarnám með einni vinnulotu

Í þessum áfanga er farið í helstu atriði og viðbrögð við óvæntum slysum og veikindum. Áhersla er lögð á góðan skilning á efninu og færni í grunnendurlífgun og notkun hjartastuðtækja, meðhöndlun veikra og slasaðra.

Áfanginn inniheldur bæði bóklegan hluta og verklegan. Báðum þessum hlutum þarf að ljúka með fullnægjandi hætti til að ljúka áfanganum. Bóklegi hlutinn fer algerlega fram í fjarnámi en auk þess þarf að mæta einn dag í verklega hlutann.

Animation (HÖNN2UX05) | Staðnám á vorönn

Farið er í helstu atriði sem snúa að hugmyndavinnu, teikningu og vinnslu á grafísku efni fyrir margmiðlun. Dýpkuð er þekking og hæfni nemenda í notkun á teikniforriti til þess að vinna áhrifaríkar teikningar sem hægt er að nýta fyrir hina ýmsu miðla. Notað er margmiðlunar- og hreyfimyndaforrit til að útbúa ýmiss konar grafískt margmiðlunarefni í formi hreyfimynda og gagnvirks efnis. Verkefni í áfanganum eru m.a. teikningar, umbreyting á punktamynd í vektorsmynd og gerð gagnvirkrar hreyfimyndar fyrir vef.

Forritun (FORR2FF05) | Staðnám á vorönn

Framhaldsáfangi í forritun. Nemendur fá meiri þjálfun í hlutbundna forritunarmálinu C#. Áhersla er lögð á sjálfstæð og öguð vinnubrögð við lausnir fjölbreyttra forritunarverkefna til að byggja upp færni. Meðal viðfangsefna er atburðastýrð forritun í myndrænum notendaskilum, strengjavinnsla, skráarvinnsla og villumeðhöndlun.

Stærðfræði - Deildun o.fl. (STÆR3DE05) | Staðnám á vorönn

Föll, markgildi, deildun og heildun.

Meginefni áfangans eru föll, markgildi, deildareikningur og kynning á heildun. Efnisþættir sem teknir verða fyrir í áfanganum eru: Föll: Veldisföll, vísisföll, lograföll, andhverf föll, samskeytt föll, eintæk, átæk og gagntæk föll. Markgildi og deildun: Markgildishugtakið. Skilgreining á afleiðu falls. Deildun veldisfalla, vísisfalla, lografalla og hornafalla. Reiknireglur fyrir deildun margfeldis, ræðra falla og samskeyttra falla. Samfeldni og deildanleiki falla. Aðfellur. Hagnýting deildunar við könnun falla, s.s. að finna staðbundin hágildi og lággildi, einhallabil, beygjuskil og jöfnu snertils. Gröf falla. Notkun deildareiknings við hagnýt viðfangsefni, t.d. útreikning á hraða og hröðun. Söguleg þróun deildareiknings. Heildun: Kynning á heildun, stofnföll einfaldra veldis-, vísis-, logra- og hornafalla. Ákveðið og óákveðið heildi. Flatarmál svæða sem afmarkast af gröfum falla reiknað með heildun. Samband vegalendar, hraða og hröðunar.

Stærðfræði - Hornaföll og vigrar (STÆR3HV05) | Staðnám á vorönn

Unnið er með hornaföll, tengsl algebru og rúmfræði í hnitakerfi, keilusnið, vigra og yrðingarökfræði.

Tölvuleikir og leikjatölvur (TÖLE2SF05) | Staðnám á vorönn

Saga þróun og fræði tölvuleikja og leikjatölva.

Í áfanganum verður fjallað um tölvuleiki í víðu samhengi og skoðað hvernig tölvuleikir tengjast hinum ýmsum greinum. Markmiðið er að gefa nemendum dýpri innsýn í tölvuleiki, þróun þeirra og hlutverk í nútímasamfélagi sem áhugamál, iðnaður og listgrein. Byrjað verður á að fara yfir sögu tölvuleikja og leikjatölva til að gefa nemendur yfirsýn yfir efnið. Í framhaldinu verða fræðin á bakvið leikina skoðuð og uppbygging þeirra. Í lok áfangans fá nemendur tækifæri til að nýta þekkingu sína til að þróa sína eigin leikjahugmynd og kynna hana fyrir öðrum.

Miðlun og tækni (MIÐL2MT05) | Staðnám á vorönn

Í áfanganum er lögð áhersla á að nemendur kynnist miðlun og tækni ásamt skipulagi og stjórnun smærri viðburða. Farið er yfir hæfniþætti sem liggja að baki viðburðum og útsendingum. Fengist er við handritagerð, höfundarrétt og persónuverndarlög ásamt handritagerð fyrir hljóð- og myndefni. Einnig er farið yfir grunn í raddbeitingu og líkamstjáningu. Farið er yfir myndbyggingu, liti, sjónarhorn, lýsingu og listræna tjáningu myndefnis ásamt því að spreyta sig á notkun tækja og búnaðar til framleiðslu efnisins.

Nánar um valáfanga

Allir valáfangar eru 5 einingar hver og því er gert ráð fyrir 18-24 klst vinnu að baki hverrar einingu. Miðað er við að nemendur taki almennt 1-2 valáfanga á önn. Áfangarnir eru aðgengilegir í Moodle kennslukerfinu og þar er að finna námsefni, fyrirlestra, ítarefni, æfingar, verkefni og annað sem tengist vinnu áfangans. Nemendur fá sendan tölvupóst með hlekk á áfangann í upphafi annar.

Vinsamlegast athugið að nemendur þurfa á námsferli sínum að vera í samstarfi við námsráðgjafa til þess að huga að dreifingu eininga sinna á viðeigandi þrep samkvæmt Aðalnámskrá framhaldsskóla.