Fara í efni

Daglegt líf við Menntaskólann á Ásbrú

Í Menntaskólanum á Ásbrú er nálgun á nám og kennslu nútímaleg og ólík því sem flestir þekkja. Það skiptir okkur máli að þú vitir hvað við meinum – og hvað það þýðir fyrir nemendur í MÁ dags daglega. Við söfnuðum saman þessum punktum sem tengjast daglegu vinnulagi og hafa jafnframt mikil áhrif á það hvernig nemendur vinna.

  • Við skiptum skólavetrinum í tvennt, haustönn og vorönn. Haustönn er frá ágúst – desember og vorönn frá janúar-maí. Hvorri önn fyrir sig skiptum við einnig í tvennt, lota 1 og lota 2. Við byggjum námið upp þannig að það taki þrjú ár að klára það.
  • Ein lota er 9 vikur. Þar af eru 8 vikur þar sem nemendur vinna samkvæmt stundatöflu og strax í kjölfarið er ein vinnuvika þar sem möguleiki er á að taka úrbóta- verkefni/próf.
  • Nemendur eru yfirleitt í 3-5 áföngum í hvorri lotu fyrir sig. Að vinna í svona fáum áföngum í einu þýðir að stundataflan er öðruvísi en flestir eru vanir úr grunnskóla. Oft er hálfur eða heill dagur þar sem eingöngu er unnið í einni faggrein.
  • Engar frímínútur eru skráðar í stundatöflu nema hádegishlé. Nemendur þurfa að læra að taka sér pásur sjálfir þegar þeir hafa þörf á því og þá er mælst til þess að þeir standi upp og fari í nemendarýmið, matsalinn eða Betri stofuna ef þeir vilja t.d. spila smá tölvuleik eða spjalla við félaga. Í hádeginu standa allir upp og fá sér hádegismat.
  • Vendinám er ein af aðal kennsluaðferðum við MÁ. Það er ástæðan fyrir því að það er afar sjaldgæft að nemendur MÁ sitji og hlusti á kennara halda fyrirlestur – kennarar taka upp fyrirlestra í upptökustúdíó og setja á kennsluvefinn. Nemendur horfa yfirleitt á kennslumyndbönd heima hjá sér eða áður en þeir mæta í skólann.
  • Það eru engin lokapróf. Hins vegar er mikil krafa um að nemendur nýti allar kennslustundir til þess að vinna í verkefnum sem kennarinn hefur sett þeim fyrir á kennsluvef skólans. Nemendur þurfa mjög fljótt að verða flinkir í að skipuleggja sig sjálfir og setja sér sín eigin markmið um það hvað þeir ætla að áorka hvern dag fyrir sig. Kennarar nýnema styðja við þá hvað þetta varðar auk þess að námsráðgjafar eru ávallt stoð og stytta nemenda sem þurfa aðstoð með þetta.
  • Stundum förum við út úr húsi. Það er eðlilegur hluti af námslífinu að fara í heimsóknir – það er alltaf tengt námsmarkmiðum þegar við förum í slíkar ferðir. Við gerum í flestum tilvikum ráð fyrir því að nemendur geti sjálfir farið með strætó á staðinn, hvort sem um er að ræða heimsókn á Suðurnesjum eða á höfðuborgarsvæðinu.
  • Það er ekki mikið um það að nemendur þurfi að kaupa námsgögn, en það kemur fyrir. Í einstaka tilvikum eru slík námsgögn í formi rafbóka, aðgengi að námsvef eða jafnvel miði á leiksýningu. Við erum hins vegar mjög hrifin af open source námsefni og opnum vefsvæðum sem við reynum að nýta í mörgum tilvikum.

Ef þú hefur spurningar um daglegt líf í MÁ, þá skaltu ekki hika við að senda okkur spurningu.