Fara í efni

Algengar spurningar um stúdentsbraut í tölvuleikjagerð

Hér að neðan finnur þú samantekt af spurningum um nám við Menntaskólann á Ásbrú, námið, kostnað og aðstöðuna. Smelltu á þá spurningu sem þú vilt fá svar við.

Í hvaða nám get ég farið eftir útskrift?

Námið veitir breiðan grunn til náms á háskólastigi bæði innan- og utanlands. Nemendur geta valið að bæta við sig raungreinum á síðasta námsári hafi þeir hug á framhaldsnámi í tölvunarfræði- eða forritun. En námið reynist einnig góður grunnur að framhaldsnámi í skapandi greinum. 

Eru mörg tölvuleikjafyrirtæki á Íslandi?

Samkvæmt skýrslu sem unnin var fyrir IGI (samtök tölvuleikjaframleiðenda) voru 17 tölvuleikjafyrirtæki starfandi á Íslandi árið 2020 með 380 starfsmenn. Fjárfestingar í þessum fyrirtækjum voru upp á 325 milljónir króna en heildartekjur voru um 8,3 milljarðar en árið var það annað tekjuhæsta í sögu iðnaðarins hérlendis. 

 • 11 fyrirtæki framleiða leiki fyrir einkatölvur (e. PC)
 • 11 fyrirtæki framleiða farsímaleiki (e. mobile games)
 • 3 fyrirtæki framleiða sýndarveruleikaleiki (e. VR/AR games)
 • 3 fyrirtæki framleiða leiki fyrir leikjatölvur (e. console games)
 • 1 fyrirtæki framleiðir leiki fyrir netvafra (e. browser games)

Skoða skýrsluna [Google Drive skjal]

Hvaða fyrirtækjum hafið þið unnið með?

Nemendur okkar hafa unnið samstarfsverkefni með tölvuleikjaframleiðendunum Solid Clouds og CCP. Þá hafa þeir hannað tölvuleiki fyrir yngstu farþegana um Keflavíkuflugvöll í samstarfsverkefni með Isavia. Við leitumst við að nemendur vinni eitt samstarfsverkefni á önn við aðila á vinnumarkaði bæði til þess að efla tengsl þeirra við atvinnulífið og veita nemendum raunhæfa reynslu af störfum í hugverkaiðnaði.

Hver eru inntökuskilyrðin?

Inntökuskilyrði eru hæfnieinkunn B í ensku, íslensku og stærðfræði í lok grunnskóla eða að hafa lokið fyrsta þreps áfanga í þessum greinum.

Spyrjast fyrir um inntökuskilyrði

Hvernig skrái ég mig í nám?

Nemendur sækja um rafrænt á vef Menntamálastofnunar – www.menntagatt.is – á tilteknu auglýstu tímabili. Allir umsækjendur eru boðaðir í inntökuviðtal við fulltrúa Menntaskólans á Ásbrú. Til viðbótar við inntökuviðtalið er miðað við að umsækjandi hafi lokið grunnskólaprófi með hæfnieinkunn B í ensku, íslensku og stærðfræði - eða hafi lokið fyrsta þreps áfanga í þessum greinum. Samkvæmt reglugerð nr. 1150/2008 um innritun í framhaldsskóla eiga umsækjendur undir 18 ára aldri rétt á að stunda nám í framhaldsskóla og hafa þannig forgang fram yfir eldri umsækjendur. Hæfni umsækjenda er metin út frá fyrrnefndum viðmiðum og býðst skólavist m.t.t. hæfnimats. Inntökufjöldi getur verið ólíkur milli anna.

Skrá mig í nám

Hvað kostar námið?

Námsgjöld eru uppfærð árlega og upplýsingar um þau má finnar hér.

Námsgjöld eru innheimt fyrir hverja önn fyrir sig sérstaklega, þau miðast við staðgreiðslu og skulu vera að fullu greidd í upphafi hverrar annar samkvæmt útgefnum gjalddaga hverju sinni. Samhliða innheimtu námsgjalda eru innheimt félagsgjöld fyrir Nemendafélag Menntaskólans á Ásbrú. Nemandi getur ekki fengið afhent prófskírteini fyrr en uppgjör vegna námsgjalda hefur farið fram að fullu. Þeir nemendur sem ekki hafa greitt skólagjöldin sín þegar nám hefst geta átt von á að lokað verði á aðgang þeirra að kennslukerfi skólans án fyrirvara. Námsgjöld eru ekki endurgreidd.

Hvernig kemst ég til ykkar?

Það eru örar og reglulegar samgöngur með strætó til og frá Ásbrú, en leið 55 keyrir milli höfuðborgarsvæðisins og Reykjanesbæjar.

Nemendur í Menntaskólanum á Ásbrú geta keypt annarkort í Strætó sem gildir til og frá höfuðborgarsvæðisins. Nemendur sem uppfylla ákveðin skilyrði geta átt rétt á jöfnunarstyrk til að niðurgreiða ferðir til og frá skóla sem nemur kostnaði annarkorts.

Hverjir eru kennararnir?

Skólameistari Menntaskólans á Ásbrú er Nanna Kristjana Traustadóttir, en auk hennar er einvala lið kennara og starfsfólks við skólann.

Kennarar og starfsfólk

Hvernig tölvubúnað þarf ég?

Nemendur þurfa að hafa fartölvu til umráða í náminu. Lágmarks hugbúnaðarkröfur fyrir fartölvur eru æskilegar: 

   • Intel i5-11300H 4.5GHz Turbo 4-Kjarna eða sambærilegt
   • 16GB DDR4 2933MHz vinnsluminni
   • 512GB SSD hraðvirkur diskur
   • GTX 1650 6GB GDDR6 leikjaskjákort 

Einnig er nauðsynlegt að hver og einn hafi mús með þremur tökkum (eða tveimur tökkum og skrunhjóli). Vinsamlegast athugið að í fartölvur keyptar erlendis vantar oft < > | takka – en þeir eru mikið notaðir í forritun og því nauðsynlegir.

Vegna aðstæðna í samfélaginu ráðleggjum við nemendum einnig að hafa góð heyrnatól með míkrafón og góða vefmyndavél.

 

Hvernig skrái ég veikindi?

Til að skrá veikindi nemanda undir 18 ára aldri þarf forráðamaður að skrá sig inn á www.inna.is en nemendur yfir 18 ára aldri geta skráð veikindi sjálfir. Mikilvægt er að skrá veikindi nemanda daglega sé viðkomandi veikur fleiri en einn dag.

Leiðbeiningar um veikindaskráningu [PDF]

Hvað læri ég um tölvuleiki?

Tölvuleikjakjarninn samanstendur af sex áföngum í tölvuleikjagerð, markaðsfræði, frumkvöðlafræði, margmiðlun, heimspeki, eðlisfræði - og listgreinum í bundnu vali.​​

Hvernig fer kennslan fram?

Við notumst við nútíma kennsluhætti, vendinám, þverfaglega vinnu og verkefnamiðað vinnulag. Við höldum ekki lokapróf heldur notum við fjölbreytt námsmat sem er sinnt jafnt og þétt. Námið fer aðeins fram í staðnámi.

Hvernig er námsumhverfið?

Við erum með vinnuaðstöðu í sérklassa sérstaklega hannaða með það að leiðarljósi að vera nútímalegt, fjölbreytt og aðlaðandi starfsumhverfi þar sem nemendum líður vel og langar til þess að sinna vinnu sinni.​​

Hvernig fer miðannamat fram?

Kennarar skrá stöðumat allra nemenda í fjórðu viku bæði fyrstu og annarrar lotu á haus- og vorönn. Miðannarmatið fylgir eftirfarandi kvarða:

F = Framúrskarandi vinnuframlag, viðhorf og ástundun náms.

G = Góð ástundun náms með möguleiki á frekari bætingu.

Þ = Þarf að bæta úr ástundun náms svo unnt sé að ná námsmarkmiðum.

X = Engar forsendur eru til þess að meta ástundun.

Fái nemandi matskvarðann Þ eða X í áfanga er ekki líkur á því að nemandinn ljúki áfanganum með fullnægjandi árangri. Afar brýnt að brugðist sé við því, gjarnan í samstarfi við námsráðgjafa.

Reglur um námsmat