Starfsmannastefna Keilis

Helstu efnisþættir í starfsmannastefnu Keilis eru eftirfarandi:

 1. Keilir vill vera eftirsóknarverður vinnustaður þar sem starfsfólki líður vel og því eru búin góð skilyrði til að sinna störfum sínum
 2. Keilir vill auðvelda starfsmönnum að samræma fjölskylduábyrgð og starf
 3. Keilir leggur áherslu á að starfsmenn eigi kost á fræðslu og endurmenntun sem eykur þekkingu þeirra í starfi
 4. Keilir stuðlar að heilsusamlegu líferni starfsmanna
 5. Keilir leggur áherslu á góðan starfsanda á vinnustað. Til að stuðla að því er mikilvægt að jafnrétti sé haft í heiðri, að fólk sýni hvort öðru vinsemd, umburðarlyndi og traust og að öll boðskipti innan fyrirtækisins séu jákvæð, greið og góð
 6. Keilir væntir þess að starfsmenn vinni verk sín af fagmennsku, kostgæfni og heilindum
 7. Keilir vill taka vel á móti nýjum starfsmönnum og stuðla að því að þeir samlagist fljótt þeim starfsmönnum sem fyrir eru
 8. Starfsmenn Keilis eru árlega boðaðir í starfsmannaviðtal, þar sem m.a. er rætt um árangur þeirra og frammistöðu
 9. Keilir væntir þess að starfsmenn hafi umhverfissjónarmið að leiðarljósi

Fjölskylduvæn stefna

Keilir leitast við að skapa jákvæða fjölskyldustefnu með því hlúa vel að fjölskyldunni og skapa henni þroskavænleg skilyrði.

 • Keilir leitast við að jafnvægi ríki milli fjölskyldulífs og atvinnu með því að gefa starfmönnum kost á sveigjanlegum vinnutíma eða annarri hagræðingu á vinnutíma þar sem því verður við komið.
 • Keilir leitast við að taka tillit til breytinga á persónulegum högum starfsfólks.
 • Keilir styður við fjölskylduvænar skemmtanir á vegum starfsmannafélagsins.
 • Keilir tryggir aðgengi starfsmanna að sama starfi eftir fæðingar- eða foreldraorlof.
 • Keilir sýnir starfsfólki sem hefur orðið fyrir áfalli stuðning eins og unnt er. T.d. með því að taka þátt í kostnaði við sálfræðimeðferð.

Fjölskyldustefna er liður í því að auka starfánægju starfsmanna. Aukin ánægja starfsfólks skilar sér í betri starfsanda og árangursríkara starfi. Áhersla er lögð á að bæði konur og karlar geti samræmt fjölskylduábyrgð og starf sitt hjá Keili.

Keilir hlaut á dögunum viðurkenningu sem fjölskylduvænt fyrirtæki í Reykjnesbæ. Verðlaunin voru afhent á Degi um málefni fjölskyldunnar sem haldinn var í Íþróttaakademíunni í Reykjanesbæ laugardaginn 27. febrúar 2010.

Fræðsla og símenntun 

Keilir stuðlar  að því að ráðið sé starfsfólk með fjölbreytta menntun og reynslu.

Markmið Keilis er að rækta sem best þann mannauð, sem í  starfsmönnum felst. Nauðsynlegt er að starfsfólk hafi kost á að sækja nám, námskeið og ráðstefnur til að efla tengsl sín við innlenda og erlenda starfsfélaga. Námskeið- og ráðstefnur sem starfsmenn sækja skulu nýtast skólanum. Það er jafnt á ábyrgð starfsmanna og stjórnenda að tryggja að endur- og símenntun sé sinnt sem skyldi. Starfsmenn sem sækja ráðstefnur og námskeið á vegum skólans skulu miðla þekkingu sinni til annarra starfsmanna eftir því sem kostur er. Umsjón með símenntun starfsmanna er í höndum hvers deildarstjóra í samráði við framkvæmdastjóra. Keilir tekur þátt í endurmenntun með beinum fjárframlögum upp að vissri upphæð og með því að veita starfsfólki sveigjanlegan vinnutíma á meðan á námi stendur. 

Starfsfólk er einnig hvatt til þess að sækja um styrki til náms hjá viðkomandi stéttarfélagi.

Hreyfing

Keilir leitast við að styðja starfsfólk sitt og hvetja til hreyfingar og útivistar. Að ástundun heilbrigðs lífsstíls og lífshátta sé sjálfsagður og eðlilegur þáttur í starfseminni. Þetta er gert m.a. með skipulögðum atburðum, hádegislokun og öðru.

Framkoma og samskipti á vinnustað

Starfsmenn skulu fylgja fyrirmælum yfirmanna og þeim reglum og leiðbeiningum sem eru í gildi. Þeir skulu sýna frumkvæði, hollustu, heiðarleika, trúmennsku og vandvirkni í starfi.  Mjög mikilvægt er að starfsfólk gæti þagmælsku og sýni trúnað gagnvart samstarfsfólki og viðskiptavinum.

Góður starfsandi eykur starfsgleði og árangur starfsmanna og gerir Keilir að eftirsóknarverðum vinnustað. Því er lagt mikið upp úr góðum starfsanda. Starfsmenn skulu vera reiðubúnir að vinna saman að sameiginlegum markmiðum og létta undir og aðstoða hvort annað ef þess er þörf.

Atferli eins og einelti eða ótilhlýðileg háttsemi er alvarlegt brot og skal meðhöndlast í samræmi við „Reglugerð um aðgerðir gegn einelti á vinnustað gr. 1009/2015“.

Starfsmönnum ber  að viðhafa vandvirkni, varúð og góða siði í öllum tölvupóstssamskiptum.

Jafnrétti kynjanna

Gæta skal fyllsta jafnréttis milli kvenna og karla og að hver starfsmaður verði metinn á eigin forsendum. Kynbundin mismunun er óheimil í hvaða formi sem hún birtist. Stuðla skal að jafnri stöðu kvenna og karla innan Keilis og jöfnum tækifærum einstaklinga á sem flestum sviðum óháð kynferði.

Við ákvörðun launa skal þess gætt að kynjum sé ekki mismunað. Konum og körlum skulu greidd jöfn laun og skulu njóta sömu kjara fyrir jafnverðmæt og sambærileg störf.

Laus störf skulu standa opin jafnt konum sem körlum og tryggt skal að konur og karlar njóti sömu möguleika til endurmenntunar og starfsþjálfunar.

Upplýsingar og boðmiðlun

Stuðla ber að skýrum boðleiðum og virku flæði upplýsinga milli yfirmanna og annarra starfsmanna með því að halda reglulega starfsmannafundi. Starfsmenn vinna mikið í opnum rýmum og því er  mikið upp úr opnum samskiptum milli starfsmanna.

Veikindi ber að tilkynna næsta yfirmanni og þeim sem starfa á símanum.

Umhverfið

Keilir hefur umhverfissjónarmið og verndun náttúrunnar að leiðarljósi í daglegum athöfnum þar sem umgengni er til fyrirmyndar í húsakynnum skólans og á lóð hans. Starfsfólki ber að taka tillit til umhverfissjónarmiða við innkaup, minnka notkun pappírs og nota sem minnst af skaðlegum efnum og sem mest af endurnýtanlegum.

Starfsmannaviðtöl

Starfsmenn Keilis eru árlega boðaðir í starfsmannaviðtal, þar sem m.a. er rætt um árangur þeirra og frammistöðu. Um leið gefst starfsmönnum kostur á að koma sjónarmiðum sínum og óskum á framfæri.

Móttaka nýrra starfsmanna 

Keilir leggur mikla áherslu á að tekið sé vel á móti nýjum starfsmönnum. Nýir starfsmenn skulu fræddir bæði um almenna starfsemi skólans og þann hluta starfseminnar sem lýtur sérstaklega að starfsviði þeirra. Næsti yfirmaður ber ábyrgð á að tekið sé á móti nýjum starfsmanni og hefur umsjón með þjálfun hans, kynnir hann fyrir öðru samstarfsfólki, tengiliðum og tryggir jafnframt að vinnuaðstaða hans sé tilbúin þegar hann hefur störf. Starfsmaður Keilis er ýmist launþegi eða verktaki og gilda sömu viðmið um báða aðila.