Jafnréttisáætlun Keilis

Við Keili skal ríkja jafnrétti og gagnkvæm virðing meðal starfsfólks og nemenda og skulu allir njóta sanngirni og jafnra tækifæra. Í jafnréttisáætlun þessari skal tryggt að starfsmönnun sé ekki mismunað vegna kyns, aldurs, þjóðernis, kynþáttar, fötlunar eða kynhneigðar og koma í veg fyrir mismunun eða áreiti á grundvelli þessa eða annarra óviðkomandi þátta. Áætlunin á að stuðla að því að allir innan Keilis séu virtir og metnir að verðleikum og á eigin forsendum og að hæfileikar og mannauður verði sem best nýttur. 

Ábyrgð og framkvæmd

Allir stjórnendur skólans eru ábyrgir fyrir framgangi jafnréttismála og framkvæmd og eftirfylgni jafnréttisáætlunar. Sérstök jafnréttisnefnd fylgist með framgangi jafnréttisáætlunar og skal árlega  taka út og birta skýrslu í febrúar ár hvert um stöðu jafnréttismála innan skólans og áætlaðar aðgerðir. Jafnréttisnefnd er kjörin af framkvæmdastjórn og skulu þar sitja þrír aðilar, tveir fulltrúar starfsfólks og einn fulltrúi nemenda.Nemandinn kemur að þeim þáttum er varða nemendur.

Áætlun um aðgerðir til að framfylgja jafnréttisstefnu

1. Launajafnrétti

Konum og körlum skulu greidd jöfn laun og skulu njóta sömu kjara fyrir sömu og jafnverðmæt störf.

Markmið 
Að konur og karlar fái sömu laun fyrir sambærileg störf.

Aðgerðir
Launaviðtöl og greining á launum í kjölfarið með það að markmiði að greina hvort um kynbundinn launamun sé að ræða. Sé um kynbundinn launamun að ræða sem ekki verður skýrður með öðru en kynferði eða öðrum óviðkomandi þáttum, skal leiðrétta þann mun svo fljótt sem auðið er.

2. Laus störf, starfsþjálfun, endurmenntun og símenntun

Hvetja skal konur jafnt sem karla til að sækja um laus störf og tryggt skal að konur og karlar njóti sömu möguleika til endurmenntunar og starfsþjálfunar.

Markmið
Að stuðla að jafnrétti við mannaráðningar og að öll starfsþjálfun, sí- og endurmenntun verði  aðgengileg báðum kynjum.

Aðgerðir
Á hverju ári skal tekin saman og birt tölfræði yfir kynjasamsetningu starfsfólks. Ef um ójafnt hlutfall er að ræða skal taka tillit til þess við ráðningar. Skrá skal og safna með skipulegum hætti upplýsingum um endurmenntun starfsfólks með það að leiðarljósi að hvetja til jafnréttis og tryggja að mismunun eigi sér ekki stað.

3. Samræming fjölskyldu- og atvinnulífs

Keilir leggur áherslu á að vera fjölskylduvænn vinnustaður. Í starfsmannastefnu Keilis segir að Keilir leitist við að skapa jákvæða fjölskyldustefnu með því að  hlúa vel að fjölskyldunni og skapa henni þroskavænleg skilyrði. Að jafnvægi ríki milli fjölskyldulífs og atvinnu og bæði kyn eru hvött til þess að axla fjölskylduábyrgð. 

Markmið
Að starfsfólk finni fyrir jafnvægi  milli vinnu og einkalífs.

Aðgerðir
Að bjóða tímabundið upp á sveigjanlegan vinnutíma eða aðra hagræðingu til að mæta þörfum starfsfólk.  Þessu er framfylgt með því að upplýsa starfsfólks um fjölskylduvæna stefnu Keilis og skyldur þeirra gagnvart fyrirtækinu í því samhengi. Ennfremur skulu þættir er varða jafnvægi ræddir í árlegu starfsmannasamtali og spurt er um jafnvægi á milli vinnu og einkalífs í ánægjukönnun starfsfólks sem gæðaráð sendir út í október annað hvert ár. Jafnréttisnefnd fær upplýsingar um niðurstöður og setur þær í árlega skýrslu sem hún skilar og kemur jafnframt með tillögur að úrbótum ef þörf er á í skýrslu.

Tengill að fjölskyldustefnu Keilis:  http://www.keilir.net/is/keilir/um-keili/starsfmannastefna 

4. Einelti, kynbundin áreitni og kynferðisleg áreitni

Starfsmenn og nemendur skulu koma fram við hver annan af virðingu og í samræmi við siðareglur Keilis. Hvers konar einelti, kynbundin eða kynferðisleg áreitni er ekki liðin við Keili.

Markmið
Að einelti og  kynbundin og kynferðisleg áreitni nái ekki að skjóta rótum hjá nemendum og starfsfólki Keilis.

Aðgerðir
Láta starfsmenn og nemendur vita að kynferðisleg áreitni og kynbundin áreitni sé ekki liðinn í skólanum og láta jafnframt vita af eineltisáætlun í siðareglum. Starfsmenn verða látnir vita í árlegu starfsmannasamtali og nemendur í inntökuviðtali.  Í árlegu starfsmannaviðtali skulu starfsmenn spurðir hvort þeir hafi orðið fyrir, eða orðið vitni að, einelti eða áreitni. Öllum kvörtunum og ábendingum frá starfsfólki og nemendum skal brugðist við samkvæmt áætlun. Í október annað hvert ár sendir gæðaráð út ánægjukönnun til starfsfólks og í mars ár hvert er send út könnun um líðan nemenda og hefur jafnréttisráð aðgang að niðurstöðum og koma með tillögur að úrbótum ef þörf er á í skýrslu.

Tengill að eineltisáætlun Keilis: http://www.keilir.net/is/keilir/um-keili/sidareglur-keilis

5. Nemendur

Keilir leggur áherslu á að höfða til allra einstaklinga óháð kyni og að ekki séu til staðar kerfisbundnir þættir sem letja eða hindra einstaklinga af öðru hvoru kyninu í að sækja nám við ákveðnar brautir. Kynningarstarf miðast við það að laða að fólk af báðum kynjum.  Kennslu- og námsgögn skulu þannig úr garði gerð að kynjum sé ekki mismunað.

Markmið
Að nám við Keili höfði til allra einstaklinga óháð kyni og að kynningarstarf beri þess merki. Tryggja að kennslu- og námsgögn mismuni ekki kynjum.

Aðgerðir
Unnið skal markvisst að því að kynna nám sem hallar á annað kynið með því að hafa auglýsingar ekki kynbundnar. Jafnréttisnefnd taki saman og skili  skýrslu árlega hvernig kynjaskipting er í hverri deild og komi með tillögur að úrbótum og fylgir því eftir að þeim sé komið í framkvæmd. Hver deildarstjóri ber ábyrgð á því að kennslu- og námsgögn mismuni ekki kynjum með því að yfirfara allt efni áður en nám hefst að hausti. Í mars ár hvert er send út könnun um líðan nemenda og hefur jafnréttisráð aðgang að niðurstöðum og kemur með tillögur að úrbótum í skýrslu ef þörf er á.