Jafnt kynjahlutfall meðal bæði nemenda og stjórnenda Keilis

Fjórðungur atvinnuflugnema eru konur
Fjórðungur atvinnuflugnema eru konur

Menntasvið Keilis tók nýverið saman tölulegar upplýsingar um nemendur og starfsfólk Keilis. Þar kemur meðal annars að á yfirstandandi skólaári stunda hátt í sjö hundruð nemendur nám við skólann. Þar af eru nemendur Háskólabrúar fjölmennastir eða 317 talsins í bæði stað- og fjarnámi.

Líkt og undanfarin ár er meðalaldur nemenda í Keili í kringum þrítugt og eru flestir þeirra búsettir á Höfuðborgarsvæðinu eða ríflega helmingur. Rúmlega fjórðungur nemenda kemur af Reykjanesinu og tæp 10% af Suðurlandinu. Níu af hverju tíu nemendum skólans eru íslenskir ríkisborgarar. Um sextíu nemendur koma erlendis frá. Danir eru fjölmennastir þeirra eða um fjórðungur en næst á eftir þeim koma Svíar sem eru um 17% erlendra nemenda. Þá koma aðrir nemendur frá meðal annars Eystrasaltslöndunum, Norður-Ameríku, Kína, Tékklandi, Finnlandi, Bretlandi, Ítalíu og Panama.

Í fyrsta skiptið frá stofnun skólans árið 2007 er kynjahlutfall nemenda í Keili hnífjafnt. Munar þar mestu um aukinn áhuga kvenna á atvinnuflugnámi og eru þær nú ríflega fjórðungur flugnema í Flugakademíunni. Þá má geta þess að jafn margar konur og karlar hafa sæti í framkvæmdastjórn Keilis, auk þess sem jafnt kynjahlutfall er meðal forstöðumanna deilda skólans sem og í stjórn Keilis.