Háskólabrú veitir aðgang að fjölbreyttu háskólanámi

Háskólabrú Keilis hefur gefið yfir tvö þúsund einstaklingum nýtt tækifæri til náms
Háskólabrú Keilis hefur gefið yfir tvö þúsund einstaklingum nýtt tækifæri til náms
Haustið 2008 undirrituðu Keilir og Háskóli Íslands samning þess eðlis að próf á Háskólabrú skuli teljast sambærilegt stúdentsprófi. Háskólabrú Keilis er þannig eini skólinn á Íslandi sem býður upp á aðfaranám í samstarfi við þennan fjölmennasta háskóla landsins og gildir námið til inntöku í allar deildir hans.
 
Frá því að fyrstu nemendur Háskólabrúar brautskráðust sumarið 2008 hafa yfir tvö þúsund einstaklingar lokið náminu. Af þeim hafa nærri níu af hverjum tíu haldið áfram í námi bæði innan Háskóla Íslands sem og í öðrum háskólum hérlendis og erlendis, en eftir þeirra inntökuskilyrðum hverju sinni.
 
Aðeins Háskólinn á Akureyri telur frumgreinanám ekki jafngilt stúdentsprófi, einn háskóla á Íslandi, og skiptir þá einu hversu vel nemendur eru undirbúnir fyrir háskólanám. Þá sækja fjölmargir útskriftarnema Háskólabrúar árlega um nám í erlendum háskólum og hafa þeir undantekningalaust viðurkennt námið sem fullnægjandi inntökuskilyrði. Það má því segja að HA sé eini skólinn á heimsvísu þar sem nemendur með frumgreinanám eiga ekki greiðan aðgang.
 
Ánægðir nemendur og vel undirbúnir fyrir háskólanám
 
Markmiðið með Háskólabrú er að nemendur skólans séu vel undirbúnir til að takast á við kröfuhart háskólanám. Stór hluti af gæðastarfi Keilis leggur þannig áherslu á að fylgjast grant með gengi og framgangi útskrifaðra nemenda Háskólabrúar í háskólanámi sínu.
 
Kannanir sýna að um 80% útskriftarnemenda telja sig vera vel undirbúna fyrir háskólanám. Þá eru nemendur af Háskólabrú í fjórða sæti yfir þá nemendur sem telja sig vel undirbúna fyrir háskólanám í kennslukönnunum nemenda í Háskóla íslands.
 
Niðurstöður könnunar um líðan og þjónustu skólans á síðasta ári gáfu jákvæðar niðurstöður eins og hefur verið undanfarin ár. Nemendur eru ánægðir með námið í heild hvort sem það eru kennsluhættir námsmatsfyrirkomulag starfsfólk eða fyrirkomulag námsins.
 
Nemendur taka sérstaklega fram mikilvægi aðfaranáms með þessu sniði og ítreka með umsögnum að námið henti vel fullorðnum námsmönnum. Nemendur eru þakklátir fyrir þennan valmöguleika og tækifærið sem þeir fá á fullorðins árum þegar þeir eru tilbúnir og hafa kost á því að hefja aftur nám eftir hlé.