Dietmar Wolf heldur staðlotu í ÍAK styrktarþjálfaranámi

Dietmar Wolf heldur staðlotu í ÍAK styrktarþjálfaranámi Keilis um þessar mundir. 

En Wolf hefur um áraraðir gegnt stöðu aðalráðgjafa norska kraftlyftingasambandsins ásamt því að hafa sinnt starfi yfirþjálfara norska landsliðsins í kraftlyftingum sem og haft yfirumsjón með rannsóknum í styrktarþjálfun og verið yfirmaður fræðslumála og þróun æfingarkerfa innan sambandsins. Wolf hlaut æðsta heiður evrópska kraftlyftingasambandsins EWF þegar hann var vígður inn í frægðarhöll sambandsins árið 2010. Í dag er starfar hann sem yfirþjálfari þýska landsliðsins í kraftlyftingum.

Við nýttum tækifærið og ræddum stuttlega við hann um ferilinn og þjálfarastarfið.

Hvernig byrjaði lyftinga og þjálfaraferill Wolf?

Að sögn Wolf vaknaði áhugi hans á þungalyftingum þegar hann lagði stund á frjálsar íþróttir í heimalandi sínu, Þýskalandi. Vetrarþjálfunin samanstóð af frjálsum, glímu, handbolta og þungalyftingum. Voru liðsfélagar skikkaðir í þjálfun á kraftlyftingastöð en einn af þjálfurunum á stöðinni tók eftir framúrskarandi færni Wolf og hvatti hann til þess að leita heldur inn á það svið. Ári síðar var Wolf orðinn Þýskalandsmeistari í þungalyftingum í ungmennaflokki og gekk um það leiti í unglingalandsliðið.

Wolf segir að hann hafi raunar byrjað í kraftlyftingum fyrir tilviljun, á þeim tíma lagði hann stund á efsta stig þjálfunarnáms sem býðst í Þýskalandi og þjálfaði marga af fremstu þungalyftingamönnum landsins. Einn af vinum hans tók að æfa kraftlyftingar og spurði hvort Wolf gæti þjálfað hann. Í fyrstu var hann efins þar sem hann hafði takmarkaða þekkingu á sviðinu en gerði sitt besta við að yfirfæra þá færni sem hann hafði þegar aflað sér og byggja þar ofan á. Hægt og bítandi færðist áhugi hans meira yfir í kraftlyftingar þar til kraftlyftingaþjálfun varð að hans megin atvinnu. Starfaði hann um tíma sem landsliðsþjálfari þýska liðsins áður en leiðin lá til Noregs þar sem hann starfaði í 21 ár sem yfirþjálfari norska landsliðsins, frá 1995-2017. En leiðin lá heim að nýju árið 2018 en síðan þá hefur hann starfað sem yfirþjálfari þýska landsliðsins kraftlyftingum.

Hvers vegna ætti fólk að kjósa að verða styrktarþjálfarar?

Wolf segir að ef einstaklingur kjósi að skuldbinda tíma sinn í styrktarþjálfun ætti sú manneskja að hafa aðgang að einstakling sem hefur að bera nauðsynlega vitneskju um það hvernig best sé að æfa til þess að ná settum markmiðum og ná árangri. Mikilvægt sé að hafa aðgang að einstakling sem hefur að bera nauðsynlega þekkingu til þess að svara spurningum iðkandans á meðan þjálfun stendur og ráðleggja honum um framhaldið. En leggur hann þó lykiláherslu á mikilvægi þess að koma í veg fyrir meiðsli. Að iðkandinn hafi aðgang að einstakling sem hugi að heilsu sinni á meðan þjálfunartímabili stendur. Sé ofuráhersla lögð á árangursmiðaða þjálfun aukist hættan á ofreynslu eða meiðslum. Verði menn fyrir hamlandi meiðslum taki þeir að missa hvatann, þá sérstaklega þegar þeir sjá aðra skara fram úr á sama tíma.

Hvers vegna að sækja sér þjálfaramenntun frekar en að miðla bara eigin reynslu?

Einstaklingur getur verið afbragðsíþróttamaður og aflað sér hellings þekkingar í gegnum reynslu sína. En sú reynsla er mótuð af persónuleika hans frekar en hlutlægum gögnum og rannsóknum vísindamanna. Góður þjálfari blandar saman þekkingu sem hann aflar sér í námi og þeirri reynslu sem hann hefur aflað sér. Þannig takist honum að gera sér grein fyrir heildarmyndinni.

Einhver ráð til þeirra sem leitast eftir frekari árangri í lyftingum?

Þeir ættu að finna sér einstakling sem hefur nægilega þekkingu að bera til þess að hjálpa þeim að þróa færni sína. Þá er mikilvægt að forðast ofreynslu og meiðsli bæði til þess að viðhalda hvatanum á meðan þjálfunar- og iðkunartímabili stendur og  einnig til þess að eiga sér heilbrigt líf að ferli loknum. 

Frekari upplýsingar um ÍAK styrktarþjálfaranám er að finna hér


Tengdar fréttir