Nýtt einkaþjálfaranám Keilis í fjarnámi hlýtur evrópska gæðavottun

Gæðavottun Europe Acitve
Gæðavottun Europe Acitve
Europe Active stofnunin, sem hefur umsjón með gæða- og vottunarmálum einkaþjálfara og líkamsræktarstöðva í Evrópu, hefur gæðavottað nýtt einkaþjálfaranám Keilis undir heitinu Nordic Fitness Education (NFE). Í tilkynningu þeirra kemur fram að um sé að ræða fyrsta einkaþjálfaranámið á alþjóðavísu sem samtökin viðurkenna sem er í 100% fjarnámi.
 
Arnar Hafsteinsson, forstöðumaður Íþróttaakademíu Keilis, segir samtökin hafi vottað námið þar sem skólinn hafi góða reynslu af fjarnámsframboði, auk þess sem námsefnið og fyrirkomulag þess uppfyllir stranga gæðastaðla þeirra. „Áður hafði Europe Active veitt náminu vottun sem tilraunaverkefni, en nú hafi stofnunin gengið skrefið til fulls og er námið nú að fullu vottað af þeim. Þetta er í fyrsta skipti sem stofnunin vottar nám sem er eingöngu boðið upp á í fjarnámi. Þetta er því mikil viðurkenning fyrir Keili og einkaþjálfaranám NFE“, segir Arnar. Á síðasta ári hlaut ÍAK einkaþjálfaranámið sem Keilir hefur boðið upp á hérlendis undanfarinn áratug sömu viðurkenningu Europe Active. Stofnunin hefur þar með veitt gæðastimpil á öllu einkaþjálfaranámi Keilis.
 
Með gæðavottuninni verða útskrifaðir einkaþjálfarar úr bæði ÍAK einkaþjálfaranámi Keilis og Nordic Personal Trainer Certificate (NPTC) einkaþjálfaranámi NFE náminu framvegis skráðir í EREPS (European Register of Exercise Professionals) gagnagrunn Europe Active og öðlast þar með evrópska vottun á færni sinni. 
 
Landsliðskona í knattspyrnu fyrst til að útskrifast
 
Einkaþjálfaranám NFE fer fram á ensku og er í 100% fjarnámi. Hægt er að byrja í náminu sex sinnum á ári og tekur það 6-8 mánuði allt eftir hraða nemandans. Hver áfangi tekur sjö vikur og hefur nemandinn aðgang að öllum kennslumyndböndum á meðan áfanginn er opinn. Það hentar vel í verklegri kennslu þar sem nemandinn hefur tækifæri til að fara mun dýpra í námsefni áfanganna í samanburði við staðnám, þar sem tíminn takmarkast við staðlotur.
 
Dagný Brynjarsdóttir, landsliðskona í knattspyrnu, var fyrsti nemandinn til að útskrifast úr náminu fyrr á þessu ári. „Ég var að leita að einkaþjálfaranámi sem ég gat tekið í fjarnámi á meðan ég var í atvinnumennsku erlendis“ segir Dagný, en hún hafði áður lokið háskólanámi í Bandaríkjunum. Hún stefnir á að nýta reynsluna og námið til að geta boðið upp á fjarþjálfun samhliða atvinnumennsku í fótbolta. „Eftir að ég lauk NPTC náminu fór ég í áframhaldandi nám hjá Keili í ÍAK styrktarþjálfun sem ég lýk núna í vor. Ég mun nýta reynsluna af báðum þessum námsleiðum þegar ferlinum lýkur. NPTC námið hentar vel þeim sem hafa áhuga og þekkingu á líkamsrækt og þjálfun, sérstaklega þar sem um er að ræða fjarnám.“
 
NPTC námið hentar þannig bæði á erlendum markaði sem og þeim sem vilja stunda einkaþjálfaranám samhliða vinnu. Nánari upplýsingar um námið má finna á heimasíðu Keilis.
 

Tengt efni