Eitt fyrsta námskeið í heiminum fyrir þjálfara um bættar svefnvenjur

Íþróttaakademía Keilis hefur sett saman nýstárlegt námskeið um svefn og áhrif svefnraskana á líkamsrækt - Sleep Recovery Specialist. Námskeiðið er á ensku og fer alfarið fram í fjarnámi. Það fellur inn undir röð námskeiða sem Keilir hefur sett saman fyrir erlendan markað undir heitinu Nordic Fitness Education, sem býður meðal annars upp á einkaþjálfaranám í fjarnámi - Nordic Personal Trainer Certificate (NPTC). 

Markmiðið með námskeiðinu er að einkaþjálfarar og þjálfarar almennt fræðist um og kunni að leggja mat á svefnvenjur fólks ásamt úrræðum til að bæta svefn og svefntengt atferli. Meðal þeirra sérfræðinga sem talað er við eru Dr. Russel Foster, prófessor í taugavísindumvið háskólann í Oxford, Nick Littlehales, sérhæfður þjálfari í svefnvenjum fyrir leiðandi fótboltalið í ensku úrvalsdeilldinni og Dr. Erna Arnardóttir, lífeðlis- og svefnfræðingur á Landspítala háskólasjúkrahúsi og sérfræðingi hjá Nox Medical í Reykjavík. 

Þetta er fyrsta námskeiðið í Evrópu sem leggur áherslu á svefn og bata, og er sérstaklega hannað til að votta fagfólk í líkamsrækt í viðfangsefninu. Önnur námskeið sem fjalla um svefnvenjur og svenröskun eru flest á háskólastigi og ekki hönnuð fyrir eða beint að líkamsræktarfólki. 

Svefnskortur kostar samfélagið

Á eftir vinnutíma er svefn það venjuleg manneskja eyðir hvað mestum tíma í á hverjum degi. Alþjóðaheilbrigðisstofnunin mælir með því að fólk miði við að sofa um átta tíma á hverri nóttu. Síðustu 70 árin hefur hinsvegar sá tími sem fólk notar í svefn minnkað um meira en klukkustund, úr 7,9 tímum að meðaltali í 6,8 klukkustundir á sólarhring. Það er áætlað að tveir af hverjum þremur fullorðnum einstaklingum fái ekki nægan svefn, þar sem helstu áhrifavaldar eru stress og áhyggjur. Fjárhagslegt tap í Evrópu vegna þessa hleypur á hundruðum milljarða Evra árlega. Það er því um gríðarlegt heilsufarslegt og fjárhagslegt mál að ræða.

Krónískur skortur á svefni eykur líkur á offitu, sykursýki, hjartavandamálum og þunglyndi. Þegar maður hefur ekki sofið nóg er erfiðara fyrir líkamann að verjast veikindum, hvort sem það er kvef eða krabbamein. Skortur á svefni gerir einnig líkamann veikari fyrir krabbameini og hefur verið tengdur við ýmsar gerðir þess. Þá bælir óreglulegur svefn framleiðslu hormónsins melatóníns, sem getur líka aukið hættu á krabbameini, auk þess sem svefnskortur dregur úr líkamlegri getu fólks og hversu fljótt líkaminn jafnar sig eftir líkamsrækt og þjálfun.

Hægt er að skrá sig á námskeiðið hvar og hvenær sem er. Nánari upplýsingar má nálgast hér.


Tengt efni