Burt með skólastofurnar

Skólabyggingar almennt taka mið af ævagamalli hefð sem á rætur sínar hjá Forn-Grikkjum. Þar er byggt á því að hinn fróði sé lykill almennings að upplýsingum og stendur því oftast skörinni hærra en „passivir“ hlustendur hans. Þannig var þetta á dögum Forn-Grikkja og er í grundvallaratriðum enn í dag. Skólakerfið í öllu sínu veldi byggir á því að kennarinn leiði umræðuna, veiti upplýsingar til meira og minna óvirkra hlustenda sinna – nemendanna. Skólabyggingar byggja á þessu, uppröðun í skólastofur, kjarasamningar eða í raun kerfið allt.

Fyrir vikið hefur myndast djúp gjá á milli annars vegar nemenda og hins vegar kennara. Kerfið er kennaramiðað – nemendur koma svo og laga sig að því. Með nettenginu og aðgangi að veraldarvefnum má segja að tækifæri allra til að afla sér upplýsinga og læra hafi galopnast. Fólk gleymir sér í undraheimum netsins og má segja að þar inni megi finna nánast allt.

Gjá milli skóla og raunheima

Berum saman litskrúðugan og fjölbreyttan heim vefsins annars vegar og hins vegar „kennslubókina einu“ sem nemandinn fær með löngum og fyrirsjáanlegum fyrirlestrum kennarans í kennslustund þar sem einstefna hins fróða kennara er ráðandi. Tilburðir fróðleiksfúsra til að trufla fyrirlesturinn eru kæfðar með alls kyns aðferðum.

Er nema von að nemendum virðist almennt leiðast í skóla. Skólakerfið hefur enn ekki lagað sig að upplýsingaveitum alheimsins. Er enn heft í viðjum vanans þar sem áherslan er á að kennarinn tali og nemandinn þegi. Þessu þarf að breyta ef ekki á enn ver að fara. Hvernig?

Burt með skólastofurnar

Byrjum á því einfalda: Breytum skólabyggingum. Hver er hin dæmigerði skóli? Litlir kassar með töflu þar sem kennarinn stendur og reynir að halda nemendum vakandi yfir fyrirlestri um efni sem svo margir hafa sett fram á meira spennandi hátt á netinu. Hver skólastofa er heimur kennarans þar sem hópurinn er leiddur saman í gegnum námsefnið. Skólastofan sígilda ein og sér setur nemendur og kennara í gamla, góða farið þar sem fyrirlesarin er í aðalhlutverki. Brjótum niður veggi skólastofunnar og opnum bygginguna. Sköpum okkur ólík rými þar sem nemendur geta valið sér lærdómsaðstöðu eftir þeirra þörfum hverju sinni. Leyfum þeim að vinna saman í hópum undir faglegri leiðsögn og aðstoð kennarans. Að flytja út úr hefðbundinni skólastofu neyðir alla til að hugsa starfið upp á nýtt. Jafnvel ganga svo langt að láta skipulag skólastarfsins miðast við þarfir nemendanna meira en kennaranna. Hafa skóla nemendamiðaða meira en kennaramiðaða.

Draumaskólinn

Gott dæmi um þetta er sænskur skóli sem fékk arkitekt til að hanna bygginguna á forsendum nemenda. Skólinn byggir á fjölbreytni þar sem ekki er um að ræða tiltekna skólastofu fyrir tiltekinn bekk. Þar ræðst af verkefnum hvar nemandahópar eru hverju sinni. Skólanum er skipti í fimm ólík svæði: Fjallstindurinn þar sem gert er ráð fyrir einstefnu, s.s. fyrirlestrum. ræðum o.s.frv. Hellirinn en þangað geta leitað þeir sem þurfa að einbeita sér eða vera út af fyrir sig í lærdómnum. Varðeldurinn þar sem unnið er í smærri hópum og umræður eiga sér stað og fólk getur rætt efnið án þess þó að trufla hina. Vatnsgryfjan þar sem fólk hittist án skipulags og hefur nægt pláss til að hreyfa sig og tala saman. Með hendur fram úr ermum þar sem fólk getur notað allan líkamann til að tjá sig í umræðu um vaða efni sem er.

Nemendur og kennarar velja sér svæði daglega eftir efni dagsins. Með slíku skipulagi neyðast allir til að rífa sig út úr hinni fyrirframsköpuðu hefð gömlu skólastofunnar. Í kjölfarið hljóta allir að endurskoða kennsluhættina og gera þá meira lærdómsmiðaða. Að breyta húnsæði með því að rífa niður veggi er ódýrt í ljósi alls ávinningsins sem af því hlýst. Rífum okkur út úr viðjum vanans og gerum skólana að lifandi lærdómssetri fyrir áhugasama nemendur.

Hér er slóð inn á umræddan sænska skóla: http://thelongandshort.org/spaces/hot-desks-stockholms-school-without-walls

Hjálmar Árnason,
framkvæmdastjóri Keilis


Greinin birtist í Morgunblaðinu þann 21. september 2016.