Brautskráning atvinnuflugnema

Flugakademía Keilis útskrifaði átján atvinnuflugnema laugardaginn 31. ágúst síðastliðinn. Rúnar Árnason, forstöðumaður Flugakademíunnar, flutti ávarp og stýrði athöfninni ásamt Snorra Snorrasyni, skólastjóra.
 
Dúx var Jacob Dahl Lindberg með 9,75 í meðaleinkunn og fékk hann bókagjöf frá Icelandair og flugtíma í ALSIM frá Keili - Flugskóla Íslands. Ræðu útskriftarnema flutti Philip Ljungberg.
 
Með útskriftinni hafa samtals 89 atvinnuflugnemar lokið bóklegu námi í skólanum það sem af er ársins og samtals 307 nemendur frá upphafi skólans árið 2009. 
 
Áfangaskipt og samtvinnað atvinnuflugnám hefst næst í byrjun september. Námið verður í boði á höfuðborgarsvæðinu og á Ásbrú, auk þess sem hægt verður að leggja stund á hluta bóklegs náms í fjarnámi. Rétt eins og áður mun verkleg flugkennsla fara fram á bæði alþjóðaflugvellinum í Keflavík og Reykjavíkurflugvelli. 
 
Myndir frá útskrift Keilis 31. ágúst 2019 (ljósmyndari: Páll Ketilsson)