Flugklasi

Í Grænbók um flugstefnu, sem samgönguráðuneytið lét gera, komu fram tillögur að stofnun flugklasa til að efla samstarf, nýsköpun og menntun í flugi:

Stofnun flugklasa í samstarfi við fyrirtæki, stofnanir og skóla. Til þess að koma verkefninu af stað verði klasinn fjármagnaður fyrstu þrjú árin með opinberu fjármagni ... Á þeim tíma verði leitað að einkaaðilum til að halda verkefninu áfram og taka það að sér til framtíðar. (Samgönguráðuneytið, 2019)

Keilir, miðstöð vísinda, fræða og atvinnulífs, hefur í samstarfi við Samgönguráðuneytið og Samband sveitarfélaga á Suðurnesjum, tekið að sér að leiða stofnun flugklasa á Íslandi. Undirbúningsvinna er hafin og verið er að kortleggja hagsmunaaðila í fluggeiranum og hafa samband við þá. Ásamt Keili verður starfandi fagráð um stofnun klasans, sem hefur faglega umsjón með verkefninu þar til stjórn flugklasans verður skipuð. 

Lagt er upp með að markmið með stofnun klasans verði tvíþætt:

  • Efla samkeppnishæfni Íslands og íslenskra fyrirtækja í flugtengdum greinum.
  • Styrkja samstarf, innviði og nýsköpun í flugtengdum greinum á Íslandi.

Klasafélagar munu svo sjálfir setja sér stefnu og markmið um áframhaldandi starfsemi klasans.

Áætlað er að halda stofnfund flugklasa á fyrri hluta ársins 2021 þar sem fyrstu drög að stefnu og klasakorti verða kynnt.

Allar ábendingar í tengslum við stofnun klasans eru vel þegnar, sérstaklega um aðila í flugtengdum geira og þá sem hafa áhuga á að leggja klasanum lið í undirbúningsfasa.

Umsjónarmaður verkefnisins fyrir hönd Keilis er Brynjólfur Ægir Sævarsson (sími 825 6165).