Fara í efni

Laust starf forstöðumanns Menntaskólans á Ásbrú

Keilir óskar eftir að ráða í starf forstöðumanns Menntaskólans á Ásbrú.

Menntaskólinn á Ásbrú (MÁ) er einn af fjórum skólum Keilis, miðstöðvar vísinda, fræða og atvinnulífs, sem var stofnaður árið 2019 í kringum stofnun stúdentsbrautar með áherslu á tölvuleikjagerð. MÁ hefur frá árinu 2019 boðið nemendum að stunda nám á metnaðarfullri stúdentsbraut í tölvuleikjagerð. Námið byggir á hagnýtum verkefnum og sterkum tengslum við atvinnulífið. Við leggjum áherslu á færni til framtíðar, nútíma kennsluhætti og vinnuaðstöðu í sérklassa. Námsframboð í MÁ er í stöðugri þróun, en í dag er þar einnig starfrækt fjarnámshlaðborð með stökum framhaldsskólaáföngum sem kenndir eru í fjarnámi.

Forstöðumaður heldur utan um daglegan rekstur síns sviðs, þ.m.t. fjármál, mannauðsmál, málefni nemenda og þróun náms í samstarfi við hagsmuna- og samstarfsaðila innan og utan Keilis.

Helstu verkefni:

 • Stýrir daglegu skólastarfi í samvinnu við verkefnisstjóra og kennara
 • Mótun á skólastarfi á grundvelli laga og aðalnámskrár framhaldsskóla
 • Fjárhagsáætlanagerð og regluleg endurskoðun áætlunar
 • Samþykktir reikninga og kostnaðargreining
 • Þátttaka/stjórnun kennarafunda
 • Samskipti við kennara, nemendur og foreldra
 • Þátttaka í ýmsum samstarfsverkefnum innan- og utanhúss
 • Gæðamál og fagleg framþróun
 • Skýrslugerð um ýmsa mælikvarða er varða rekstur og starfsemi

Kröfur um menntun og reynslu:

 • Háskólamenntun sem nýtist í starfi og kennsluréttindi
 • Viðbótarmenntun í stjórnun og/eða kennslureynsla á framhaldsskólastigi kostur
 • Reynsla og/eða færni í mannauðsstjórnun
 • Framúrskarandi hæfni í mannlegum samskiptum
 • Góð tölvufærni og tæknilæsi
 • Góð íslensku- og enskukunnátta
 • Þekking á fjárhagsáætlanagerð kostur

Forstöðumaður MÁ situr í framkvæmdastjórn Keilis ásamt því að vera yfirmaður síns sviðs. Við hvetjum öll kyn til þess að sækja um starfið. Umsóknarfrestur er til 25. nóvember 2021. Nánari upplýsingar veitir Nanna Kristjana Traustadóttir, framkvæmdastjóri Keilis á nanna@keilir.net.

Keilir miðstöð vísinda, fræða og atvinnulífs er leiðandi og framsækið menntafyrirtæki á Suðurnesjum. Keilir hefur það að markmiði að byggja upp námsmannasamfélag þar sem boðið er upp á vandað nám með áherslu á nýstárlega kennsluhætti og fyrsta flokks aðstöðu. Keilir skiptist í fjóra skóla sem innihalda fjölbreytt námsframboð þar sem áhersla er á að laga sig að þörfum og kröfum nútímanemenda. Skólarnir eru Háskólabrú, Flugakademía, Menntaskólinn og Heilsuakademía. Keilir starfar samkvæmt þjónustusamningi við mennta- og menningarmálaráðuneytið um kennslu á framhaldsskólastigi.

Sótt er um starfið hér.