Fara í efni

Stærðfræðigrunnur - Undirbúningsnámskeið

Stærðfræðigrunnur er hugsaður sem þjálfunarnámskeið og er sniðinn að þörfum þeirra sem vantar upp á grunninn til að geta hafið stærðfræðinám. Hann hentar því öllum þeim sem óska eftir upprifjun eða aukaefni í stærðfræði.

Fyrir námskeiðið fást engar einingar, ekkert beint aðgengi er að kennara og ekkert formlegt námsmat, ólíkt öðrum áföngum Hlaðborðsins.

Stærðfræðigrunnurinn fer að öllu leyti fram á netinu og er undurbúningsnámskeiðið sett þannig upp að hver og einn nemandi geti tileinkað sér á sjálfstæðan hátt efni áfangans, á þeim tíma sem þeim hentar og án afskipta kennara. Öll verkefni verða gagnvirk og einungis til þess hugsuð að nemandinn geti æft sig í námsefninu og kannað sjálfur þekkingu sína með gagnvirkum prófum sem fylgja áfanganum. Hvert námskeið er sett upp sem fimm vikna námsáætlun, þó hver og einn vinni það á sínum hraða.

Skráning

Áhersluþættir undirbúningsnámskeiðsins

Aðalatriði stærðfræðinnar rifjuð upp og grunnurinn styrktur fyrir frekara stærðfræðinám. Þau atriði sem farið verður yfir eru:

  • Prósentur og almenn brot
  • Algebra, margliður, jöfnur, þáttun
  • Hnitakerfið, gerð gildistöflu og jafna beinnar línu

Í tengslum við hvert atriði eru fyrirlestrar, dæmi og æfingar. Þar að auki verða upplýsingar um aukaefni fyrir þá sem vilja ná betri tökum á efninu hverju sinni.

Skráning

Stærðfræðigrunnurinn kostar 10.000 kr. Hægt er að skrá sig í áfanga á Fjarnámshlaðborði hvenær sem er. Þegar skráning hefur verið samþykkt fær nemandi sendan innritunarlykil á moodle kennslukerfið. Það getur tekið allt að tveimur virkum dögum. Nemendur hafa fjóra mánuði til að ljúka áfanganum frá þeirri dagsetningu sem skráningin var send inn á Innu.

Fyrirkomulag

Form áfanga á Fjarnámshlaðborðinu getur verið breytilegt frá einum áfanga til annars og er útskýrt ítarlega í kennsluáætlun áfangans. Því er mikilvægt að fyrsta verk nemandans sé að kynna sér hana. Áfangar innihalda oftast fyrirlestra frá kennara, önnur myndbönd, lesefni, moodle verkefni og önnur skilaverkefni. Áfanganum lýkur svo með lokaverkefni áfangans, oft í formi samtals við kennarann.

Áætlaður fjöldi vinnustunda nemandans eru 18-24 klukkustundir fyrir hverja einingu. Flestir áfangarnir eru 5 einingar og því er áætlaður vinnustundafjöldi u.þ.b. 100-120 klukkustundir í hverjum áfanga. Markmið áfanganna eru miðuð við Aðalnámskrá framhaldsskólanna og raðast á hæfniþrep samkvæmt henni.