Vinnustofur á FLIP ráðstefnu

Reiknað er með að hver vinnustofa taki 40 mínútur og verða þær haldnar fjórum sinnum á ráðstefnudeginum víðsvegar um aðalbyggingu Keilis. Ekki þarf að skrá sig sérstaklega í vinnustofurnar, en það gætu verið fjöldatakmarkanir þannig að ekki komast allir að á sama tíma.

 • Vendinám og skapandi upptökur - Stofa B1

  Kynntar verða leiðir sem kennarar geta farið í upptökum á námsefni sinnar námsgreinar og fært sig að einhverju leyti frá hinum hefðbundnu glærum. Sýnt verður hvernig kennarar geta tekið upp innslög þar sem fjallað er um námsefnið á lifandi og skapandi hátt. Opnað verður fyrir umræður þar sem góðar og gagnlegar hugmyndir munu vafalaust verða til.

 • Vendinám og raungreinar - Stofa A8

  Á vinnustofunni verða ræddar hugmyndir um það hvernig hægt er að nýta tímann í eðlis-, efna- og líffræði, hvernig vendinám og verklegir tímar fara saman og hvernig við sem kennarar getum tryggt að nemendur hlusti á fyrirlestra áður en þeir mæta í tíma. Þátttakendum gefst kostur á að taka þátt í umræðum og hugmyndavinnu sem snýr að vendinámi í raungreinum.

 • Vendinám og námsmat - Stofa B11

  Í þessari vinnustofu verður viðfangsefnið „námsmat“ skoðað í stóra samhenginu; hvert er markmiðið? Einnig verður stutt kynning á þeim tilraunum sem gerðar hafa verið með námsmat og verkefnaskil. Opnað verður fyrir umræður og vangaveltur um hvernig hver og einn kennari geti gert breytingar á sínu námsmati.

 • Vendinám, kennslumyndbönd og rafbækur í stærðfræði - Stofa A1
  Farið verður í hvernig kennslumyndbönd í stærðfræði eru búin til í appinu Explain Everything. Einnig verður farið yfir hvernig á að búa til rafbók í iBooks Author þar sem kennslumyndböndin eru meðal annars nýtt. Í lokin verður opnað fyrir umræður og spurningar og þeir sem vilja geta prófað að búa til myndband eða rafbók.

 • Forrit og samfélagsmiðlar í vendinámi - Stofa B7

  Eftir stutta kynningu á hugtakinu samfélagsmiðlar og hvernig þeir nýtast í skólastarfi skiptast þátttakendur í tvo hópa.  Annarsvegar þeir sem vilja ræða saman um notkun samfélagsmiðla og svo hinsvegar þeir sem vilja nota tækifærið og fá aðstoð við fyrstu skefin í Facebook og eða Socrative. Umræðupunktum og leiðbeiningum fyrir þá sem vilja gera æfingar á tölvuna sína verður útbýtt á staðnum. Umsjónarmaður málstofu aðstoðar báða hópa eins og þarf.

 • Vendinám og endurmenntun - Stofa B9

  Fjallað verður um hvernig fyrirtæki geta nýtt sér kennslukerfi og tæknina í sí- og endurmenntun starfsfólks. Þannig geta fyrirtæki til að mynda sparað sér mikinn kostnað við að senda starfsmenn milli landshluta eða landa til að fara á námskeið.

 • Vendinám og tónlistarnám - Stofa A2

  Í þessari vinnustofu verður fjallað um hvernig nýta megi vendinám í tónlistarkennslu. Rætt verður um möguleika þess að taka upp æfingar og fyrirmæli sem eru aðgengileg nemendum hvenær sem þeim hentar og hvort hlutverk tónlistarkennarans breytist með slíku kennslufyrirkomulagi. Loks verður opnað fyrir umræður um kosti og galla vendináms í tónlistarnámi, möguleika tónlistarfjarnáms og áskoranir stafrænnar tónlistarkennslu.

 • Beiting vendináms í verknámi - Stofa A4

  Verkleg kennsla í iðnnámi hefur ríka hefð fyrir því að láta nemendur vinna sjálfstætt með aðstoð leiðbeinenda. Í vinnustofunnni verður skoðað hvernig spegluð kennsla er þegar hluti af verknámi og eykur þátttöku nemenda í námi. Verður sýnd nútímaleg nálgun og útfærsla á verknámi með hliðsjón af spegluðum kennsluháttum.

 • Vendinám og stjórnendur (skipulag, uppsetning kennslustofu og fl) - Stofa B4

  Rætt um hlutverk stjórnenda skóla sem vilja innleiða vendinám. Hverjir eru helstu þættir í undirbúningi, innleiðingu og eftirfylgni? Fjallað verður um stundaskrár, kynningu fyrir starfsfólki, stofuskipan, kjarasamninga, tæknimálin o.s.frv. Hvað getur stjórnandinn gert?

 • Vendinám og tungumál - Stofa A5
  Hvernig getur við „flippað“ tungumálanámi? Það sem meira er, hvernig mun það auka hæfni nemenda? Í þessari vinnustofu verður fjallað um innleiðingu og skipulag vendináms í þýsku og ensku. Því munu fylgja umræður meðal þátttakenda um árangur og mögulega nálgun í tungumálakennslu.

 • Vendinám, Hover Cam og stærðfræðiupptökur - Stofa B2

  Í þessari vinnustofu verða kynntar tvær leiðir til að taka upp stærðfræði í vendinámi. Farið verður farið í uppbyggingu og skipulag í stærðfræðiáfanga með spegluðum kennsluháttum þar sem Smartboard og Hover Cam verður kynnt og sýnt hvernig það er notað með upptökuforritnu Camstasia. Eftir kynninguna verður opið fyrir umræður og þátttakendum býðst til að prófa upptökugræjurnar.

 • Vendinám og samfélagsgreinar - Stofa A3

  Í þessari vinnustofu verða ræddar leiðir til þess að búa til verkefni í samfélagsgreina-kennslu sem henta vendinámi.  Hvernig getum við hjálpað nemendum til þess að auka skilning sinn á samfélagsgreinum með því að búa til verkefni sem gerir þeim kleift að upplifa sjálf og læra út frá reynslu. Í lokin verður boðið upp á umræður um vendinám og samfélagsgreinar.

 • Vendinám – Fyrstu skref kennarans - Stofa B5

  Hvernig stígur kennari fyrstu skrefin á átt að vendinámi? Að hverju þarf að hyggja? Farið verður yfir þau atriði sem skipta máli í vendinámi. Hvernig kennarar geta háttað undirbúningi fyrir vendinám, hvernig tími kennarans nýtist í kennslustofunni, hvernig nemendur eru undirbúnir fyrir kennslutíma og hvernig hægt er að skipuleggja námsefnið í þessu kennsluformi. Reynslusögur um fyrstu skref í vendinámi verða tekin fyrir bæði úr grunn- og framhaldsskóla. Opið fyrir umræður að kynningu lokinni.

 • Vendinám fyrir nemendur með sérþarfir - Stofa B10
  Á vinnustofunni deila framsögumenn reynslu sinni af því hvernig vendinám nýtist nemendum sem hafa þörf fyrir aðra nálgun á nám en hina hefðbundnu bekkjarkennslu. Einkum verður horft á viðfangsefnin út frá sjónarhorni þeirra sem styðja nemendur með sérþarfir, s.s. sérkennara og námsráðgjafa.

 • Vendinám á háskólastigi
  Rætt um reynsluna af vendinámi á háskólastigi, upptökur, verkefni, viðbrögð stúdenta, kosti, galla o.s.frv.

 • Vendinám og einfaldar upptökur í upplýsingatæknikennslu - Stofa B3
  Fjallað verður um hvernig hægt er að styðjast við einfaldar upptökur í upplýsingatæknikennslu. Sýnt verður hvernig taka má upp fyrirlestra í Camtasia Relay, en forritið tekur upp bæði hljóð og mynd. Dæmi verða tekin um hvernig kenna má Microsoft Excel og Word með þessum hætti. Einnig verður fjallað um hvernig nýta megi kennslustundir þar sem allir nemendur hafa horft á fyrirlestrana. Í lokin verður opnað fyrir umræður.

 • Vendinám, tölvur og tækni - Stofa B13

  Í vinnustofunni verður fjallað um hvernig búnaðar- og tæknimálum þarf að vera háttað í vendinámsskóla. Fjallað verður um upptökur og hýsingu á þeim auk þess að rætt verður um búnað og forrit fyrir vendinám.

 • The Blended Classroom: How teachers can use blended learning to engage their students in exciting new ways
  Designed for teachers and how they want to teach, itslearning is a cloud-base learning platform that connects teachers, students, parents and school leaders both in and outside the classroom. It gives teachers countless ways to create engaging lessons and resources, makes sharing materials easy, and automates routine tasks so teachers have more time to focus on their students. This presentation looks at some of the possibilities offered by itslearning and shows how teachers can engage their students with exciting and rich multi-media content that can be used at in the classroom, at home, and online. Join us for a dynamic and fast-paced presentation that may open your eyes to what the future may hold.