Siðareglur Keilis

Keilir er samfélag nemenda, kennara og annars starfsfólks. Í slíku samfélagi ber öllum skylda til að taka siðferðislega ábyrgð á störfum sínum. Hver og einn ber að sýna virðingu, heiðarleika, sanngirni og jafnrétti í hegðan sinni, námi og störfum. 
 

Siðareglur Keilis eru eftirfarandi:

 • Við stöndum vörð um heiður Keilis og aðhöfumst ekki neitt það sem kynni að vera til þess fallið að rýra álit samfélagsins á skólanum.
 • Við gætum þess að fara vel með fjármuni og aðrar eignir skólans.
 • Við sýnum hvert öðru virðingu í öllum samskiptum og komum fram við hvert annað af tillitssemi. Hvort sem um er að ræða rafræn samskipti eða hefðbundin samskipti.
 • Við gætum þess að mismuna ekki hvert öðru, til dæmis vegna kyns, kynþáttar, kynhneigðar, aldurs, fötlunar, þjóðernis, trúarbragða eða skoðana.
 • Við leggjum ekki aðra í einelti og tilkynnum skólayfirvöldum ef við verðum vitni að einhvers konar einelti eða mismunun.
 • Við vinnum saman af heilindum og látum ekki persónuleg tengsl og hagsmuni hafa áhrif á samvinnu.
 • Við setjum ekki fram verk annarra sem okkar eigin. Þegar við nýtum okkur verk annarra getum við ávallt heimilda.
 • Við þiggjum ekki hjálp á meðan á prófi stendur, hvort sem prófið er tekið í skólanum eða heima.
 • Við erum virkir þátttakendur í starfi og þróun skólans og lítum á það sem skyldu okkar að miðla upplýsingum sem geta orðið til þess að bæta starf skólans.
 • Við skilum ekki verkefnavinnu úr einu námskeiði sem við höfum áður skilað í öðru námskeiði – án heimildar kennara í báðum námskeiðum.
 • Við vinnum ekki verkefni saman ef um einstaklingsverkefni er að ræða. Þá gerum við ráð fyrir að samvinna sé óheimil. 
Framkvæmdastjóri Keilis skipar einn nemanda og tvo starfsmenn í siðanefnd og ber okkur öllum að vera vakandi fyrir því að halda siðareglur skólans. Ef við verðum vör við að reglurnar hafi verið brotnar látum við námsráðgjafa vita sem kallar saman siðanefnd.
 

Eineltisáætlun Keilis

Fram kemur í siðareglum Keilis að nemendur og starfsfólk skuli koma fram við hvert annað af kurteisi og virðingu í öllum samskiptum. Einelti er ekki liðið við skólann. Ef upp kemur grunur um einelti innan skólans er tekið á þeim málum og þau sett í ákveðið ferli. 
 

Markmið eineltisáætlunar

 • Að til sé ákveðið ferli sem allir geta gengið að ef grunur leikur á einelti í skólanum.
 • Að stuðla að jákvæðum samskiptum nemenda á milli.

Skilgreining á einelti

Einelti er neikvætt og illgirnislegt atferli sem felur í sér endurtekið áreiti og/eða ofbeldi, líkamlegt eða andlegt. Eineltinu er stýrt af einstaklingi eða hópi, beinist að öðrum og stendur í nokkurn tíma. Slík samskipti einkennast af ákveðnu ójafnvægi aflsmuna eða annars valds. Einelti getur birst á mismunandi hátt:
 
 • sem stríðni,
 • sem hótanir,
 • sem útilokun,
 • í formi líkamlegs ofbeldis, 
eða sem annað niðurlægjandi áreiti s.s.:
 
 • Niðurlæging eða auðmýking t.d. vegna aldurs, kynferðis, kynhneigðar eða þjóðernis.
 • Niðurlægjandi eða lítilsvirðandi texti eða myndir í tölvupósti, sms, msn, bloggi eða öðrum skriflegum sendingum.
 • Fjandskap eða þögn þegar spurt er eða fitjað upp á samtali.
 • Óþægileg stríðni eða tilraun til fyndni á kostnað annarra.
 • Rógi eða meiðandi sögusögnum er komið af stað.
 • Útilokun frá félagslegum samskiptum.
 • Særandi athugasemdir. 
Ekki er um tæmandi yfirlit að ræða! 
 

Að þekkja einelti 

Sá einstaklingur sem verður fyrir einelti eða ofbeldi segir oft ekki frá því heldur skammast sín og kennir sjálfum sér jafnvel um. Þess vegna er mjög áríðandi að allir þekki einkenni eineltis, en þau geta verið m.a þannig að nemandi:
 
 • Lýsir andúð á skólanum.
 • Hættir að sinna náminu, einkunnir lækka.
 • Missir sjálfstraustið.
 • Einangrast félagslega.
 • Virðist óhamingjusamur, niðurdreginn, þunglyndur eða í andlegu ójafnvægi.
 • Þjáist af svefntruflunum.
 • Hefur þreytutilfinningu eða sýnir sljóleika.
 • Neitar að segja frá hvað amar að.
 • Sýnir miklar skapsveiflur, verður árásargjarn og erfiður viðureignar.
 • Kvartar undan vanlíðan á morgnana. 
Ef upp kemur einelti eða annað ofbeldi í skólanum er það í höndum siðanefndar skólans að vinna að lausn málsins með viðbragðsáætlun til hliðsjónar. 
 

Viðbragðsáætlun

 1. Siðanefnd kölluð saman.
 2. Málið er kannað m.a. með viðtölum við þá aðila sem eiga hlut að máli.
 3. Teymið gerir tillögur að lausn málsins og leggur það til að viðurlögum verði beitt, kemur það þeim áleiðis til deildastjóra.
 4. Kannað verður eftir ákveðinn tíma hvort málið er leyst og eineltinu hefur linnt. Ef svo er ekki getur þurft að leita aðstoðar aðila utan skólans við lausn málsins.