Próf og próftökuréttur

Álagi námsins er dreift yfir önnina með því að prófa þegar að áfanga er lokið í stað þess að hafa ákveðna prófaviku í lok annar. Sjúkra- og upptektarpróf eru hins vegar haldin í lok hverrar annar. Ekki er gert ráð fyrir upplestrarfríi, heldur skulu nemendur nýta önnina jafnt til lærdóms og skipulagningar.

Prófin eru ýmist skrifleg, munnleg eða verkleg. Skrifleg próf eru ýmist tekin rafrænt eða skriflega og eru venjulegast tveggja tíma. Fer lengd prófa eftir efni og aðstæðum hverju sinni og er það kennari sem tekur ákvörðun um tímalengd prófa. Sama gildir um munnleg próf og verkleg, það er kennarans að ákveða með hvaða hætti hann prófar úr námsefninu í samráði við skólastjórn. Prófafyrirkomulag skal þó liggja fyrir í upphafi annar í námsskeiðslýsingu en kennari hefur vald til að breyta prófafyrirkomulagi telji hann ríka ástæðu til.

Upplýsingar um próf

 • Próf eru haldin í hjá Keili á Ásbrú.
 • Í prófum er yfirsetufólk til staðar, en hægt er að ná sambandi við kennara.
 • Ef einkunn áfangans er skipt í prófeinkunn og verkefnaeinkunn þarf nemandi að hafa náð 7 í meðaleinkunn úr verkefnahluta til þess að hafa próftökurétt. Ef nemandi nær ekki tilskyldri lágmarkseinkunn þá telst hann fallinn á verkefnaeinkunn og telst því fallinn á námssviðinu.
 • Ef nemandi er veikur í prófi eða barn nemanda, á hann þá rétt á að taka sjúkrapróf, þarf hann að skila vottorði innan þriggja daga frá dagsetningu prófs.
 • Nemandi sem ekki nær lágmarkseinkunninni 7 á lokaprófi á rétt á að fara í upptökupróf. Nemandi sem fellur á upptökuprófi hefur ekki annan kost en að taka prófið að ári liðnu með næsta árgangi ÍAK einkaþjálfaranema.
 • Komi upp ágreiningur um námsmat á bóklegu prófi á nemandi kærurétt varðandi námsmatið með ákveðnum skilyrðum þó og á þá rétt á að fá prófdæmingu óháðs prófdómara sem sker úr um ágreining um námsmat.
 • Ekki eru sérstakir prófsýnidagar. Nemendur fá ekki að eiga prófúrlausnir heldur verða þær í vörslu hjá skóla.
 • Ef kennari telur eftir ítrekaðar athugasemdir nemenda að annmarkar kunni að vera á prófi, ellegar ef kennari hefur þurft að sitja undir ásökunum um slíkt án þess að telja að þær eigi við rök að styðjast hefur hann þann kost að láta skjóta prófinu í dóm óháðs prófdómara. Það gerir hann með því að fara fram á slíkt við umsjónarmann ÍAK einkaþjálfaranáms sem tekur að sér framkvæmd málsins.

Prófareglur

 • Nemendum er ekki heimilt að hafa með sér nein gögn né tölvu í prófi nema kennari hafi gefið sérstakt leyfi fyrir því.
 • Nemendur skulu mæta stundvíslega í verkleg próf á þeim tíma sem þeim hefur verið úthlutað ellegar áskilur kennari sér rétt til að senda nemandann aftast í tímaröðina.
 • Ef nemandi brýtur reglur um próftöku eða hefur rangt við, fær hann einkunnina 0 og á í hættu að vera beittur viðurlögum.
 • Ef nemandi mætir ekki í próf eða gengur út úr prófi fær hann einkunnina 0 og þarf að fara í upptökupróf til að ljúka áfanganum.
 • Slökkt skal vera á GSM símum, þeir ekki geymdir uppá borðum og óheimilt er að nota þá á meðan á prófi stendur.
 • Óheimilt er að hafa samband við aðra nemendur á meðan á prófi stendur sem og aðra aðila utan prófstaðar.
 • Neysla matvæla er ekki leyfileg á meðan á próftíma stendur.
 • Óheimilt er að yfirgefa prófstofu fyrstu klukkustund prófs.