Mikill áhugi á leiðsögunámi í ævintýraferðamennsku

Fjöldi umsókna hafa borist um nám í ævintýraferðamennsku á vegum Keilis og Thompson Rivers University á haustönn 2018. Líkt og undanfarin ár er mikil ásókn erlendra nemenda í námið og koma umsóknir frá tíu þjóðlöndum, meðal annars Grænlandi, Kanada, Mexíkó, Danmörku, Noregi og Bandaríkjunum.
 
Námið er á háskólastigi (60 ECTS) og tekur átta mánuði, þar sem um helmingur námstímans fer fram í verklegum áföngum víðsvegar um landið. Námið hentar vel þeim sem hafa mikinn áhuga á ferðamennsku og útivist við krefjandi aðstæður. Útskrifaðir nemendur hafa möguleika á að vinna á óhefðbundnum og fjölbreyttum starfsvettvangi með góðum starfsmöguleikum víða um heim í ört vaxandi grein ævintýraferðamennsku.   
 
Kennarar  koma bæði frá Íslandi og erlendis frá, en námið fer allt fram á ensku. Námið byggir að miklu leyti á vettvangsnámi í náttúrunni ásamt þéttri dagskrá í bóklegum fögum. Allar einingar námsins eru matshæfar í framhaldsnám innan TRU á sviði ævintýraferðamennsku. Nemendur sem hyggja á áframhaldandi nám í ævintýraferðamennsku innan TRU, geta farið beint inn í eftirfarandi nám: Adventure Guide Diploma, Adventure Management Diploma eða í fullt nám til BS gráðu í Adventure of Tourism Management.