Um Íþróttaakademíuna

Íþróttaakademía Keilis (ÍAK) er einn fjögurra skóla Keilis, miðstöðvar vísinda, fræða og atvinnulífs. Í skólanum er boðið upp á fjölbreytt nám á sviði heilsu og íþrótta.

Vinsælasta nám Íþróttaakademíunnar er ÍAK einkaþjálfun. Námið hefur verið kennt árlega frá 2006. Meðalaldur ÍAK einkaþjálfaranema eru um 32 ár og fjórðungur þeirra sem nú eru í námi hafa lokið að minnsta kosti einu háskólaprófi. ÍAK styrktarþjálfari er námsbraut sem leggur áherslu á að mennta þjálfara til að starfa með íþróttafólki og íþróttaþjálfurum við að efla líkamsstyrk og snerpu.

Íþróttaakademía Keilis býður upp á fjórar námslínur:

ÍAK einkaþjálfaranámið í Keili er tveggja anna nám og veitir 80 feiningar (framhaldsskólaeiningar). Markmiðið með náminu er að skapa framúrskarandi einkaþjálfara sem hafa yfirgripsmikla þekkingu á heilbrigði einstaklingsins og hæfni til að búa til einstaklingsmiðaðar þjálfunaráætlanir á sviði styrktar- og þolþjálfunar. 

ÍAK Styrktarþjálfaranámið er einstakt námskeið á heimsmælikvarða fyrir fagfólk í grunnþjálfun íþróttafólks. Námskeiðið er hagnýtt og byggir á aðferðafræði bandarískra styrktarþjálfara og þá er helst horft til NSCA - CSCS þjálfaraskírteinisins (National Strength and Conditioning Association - Certified Strength and Conditioning Specialist) sem fyrimynd að uppbyggingu námsbrautarinnar.

NPTC námið fer fram á ensku og er í 100% fjarnámi. Hægt er að byrja í náminu sex sinnum á ári og tekur það 6-8 mánuði allt eftir hraða nemandans. Hver áfangi tekur sjö vikur og hefur nemandinn aðgang að öllum kennslumyndböndum á meðan áfanginn er opinn. Það hentar vel í verklegri kennslu þar sem nemandinn hefur tækifæri til að fara mun dýpra í námsefni áfanganna í samanburði við staðnám, þar sem tíminn takmarkast við staðlotur.

Leiðsögunám í Ævintýraferðamennsku (Adventure Sports Certification) er átta mánaða (tveggja anna) nám á háskólastig og gefur 60 ECTS einingar. Námið er kennt á Íslandi í samstarfi Keilis og Thompson Rivers University í Kanada.

Fótaaðgerðarfræði sem er löggilt starfsgrein og teljast fótaaðgerðafræðingar til heilbrigðisstétta. Nám í fótaaðgerðafræði er samtals 199 einingar og skiptist í 48 eininga nám í almennum kjarna, 61 eininga nám í heilbrigðisgreinum sem er sameiginlegt öðrum heilbrigðisstéttum, og 90 eininga nám í bóklegum og verklegum sérgreinum fótaaðgerðafræðinnar. Sérnámið er skipulagt sem þriggja anna nám.

Keilir kappkostar við að bjóða uppá fjölbreytt stök námskeið fyrir þá sem veita ráðleggingar á sviði þjálfunar og næringar. Námskeiðin eru ýmist kennd af kennurum við ÍAK eða öðrum erlendum sem og íslenskum sérfræðingum.

Arnar Hafsteinsson
Forstöðumaður Íþróttaakademíu Keilis