Umsagnir

Umsagnir um hraðaþjálfunarnámskeið Martin Rooney 14. - 15. apríl 2012

Það er sagt að maður geti einungis haldið einbeitingu í 15 mínútur í senn og er ég lifandi dæmi þess. Ég hins vegar átti erfitt með að halda ekki einbeitingu í 17 klukkustundir á hraðanámskeiði Martin Rooney hjá Keili. Algjörlega frábært námskeið í alla staði og maður gekk út sem splunkunýr þjálfari, og ekki bara það heldur sem íþróttamaður sjálfur. Eldmóðurinn og útgeilsun þessa manns á ekkert skillt við það sem maður hefur séð áður og hann fékk mann svoleiðis til að hugsa: ,,vá hvað ég væri til í að hafa þennan kraft í minni þjálfun".

Vill nota tækifærið og hrósa Keili fyrir að hafa fengið þennan mann til landsins því að hann er svo sannarlega maður sem hinn almenni íslenski þjálfari þarf að hitta um lífsleiðina.

Sigurður Heiðar, íþróttafræðinemi

Eftir að hafa setið námskeið með Martin Rooney þá fékk ég svolítið á tilfinninguna að ég væri ekki alveg með rétta forgangsröðun í þjálfuninni. Martin fékk mig til að hugsa hlutina aðeins upp á nýtt, þannig að ég hef verið að skoða mig og mína þjálfun út frá hans hugmyndum og hvernig ég geti breitt ákveðnum áherslum í minni þjálfun út frá hans hugmyndum. Þá fannst mér áhugaverð þessi hugsun með að leggja meiri áherslu á að læra að stöðva/lenda frekar en endilega að vinna alltaf með það að fá iðkendur til að hoppa hærra á kostnað lendingar. Martin fékk mann til að vilja fara út og byrja að vinna strax eftir hans hugmyndafræði sem ég tel vera mikil meðmæli. Því mæli ég eindregið með þessu námskeiði.

Jóhann Gunnar Jóhannsson, íþróttafræðingur og handboltaþjálfari

Martin Rooney hefur breytt hvernig ég hugsa bæði mína eigin þjálfun og hvernig ég þjálfa. Bæði í æfingum og ekki síður í nálgun á starfi þjálfarans sjálfs.

Baldur Már Stefánsson, íþróttafræðingur og körfuboltaþjálfari

Hvað er það sem ákvarðar hvort að þú náir árangri í þinni íþrótt eða lífinu almennt?   Kannski ert þú einn af þeim sem hugsaðir: „það er svo margt sem ákvarðar það, hmmm... t.d. peningar, þjálfarinn, áhöldin, genin, kyn, aðstaða osfrv.“  Þá hefðir þú einmitt gott af því að sækja fyrirlestur Martin Rooney.

Þegar þú hefur sótt ótal fyrirlestra um heilsu/þjálfun sem fjalla allir um sömu mýtuna, sömu æfingarnar, nánast sömu power-point skjölin og það skilur ekkert eftir sig nema sára budduna, þá er maður oft efins að sækja fyrirlestra tengdu heilsu/þjálfun, amk. hérlendis.
Þegar ég sótti mitt háskólanám þá var maður alltaf að uppgötva e-ð nýtt, móta kennslu-/þjálfunarhæfileika sína og taka það góða frá þeim kennurum sem voru að kenna hverju sinni.

Það er ekki fyrr en 12 árum eftir að háskólanámi mínu lýkur að maður fær þessa tilfinningu aftur, þessa tilfinningu sem segir þér að þú varst að uppgötva e-ð svo frábært en í senn svo einfalt.  Þegar ég tek ákvörðun um að sækja fyrirlestra þá leita ég eftir upplýsingum um viðkomandi; er hann með e-ð sérstakt, er hann sér á báti á sínu sviði, er hann einstakur?

Hraðanámskeið Martin Rooney var í einu orði sagt ótrúlegt.  Ég vissi það svosem að ég fengi ekki bara aðra sýn á hraðaþjálfun heldur líka kannski e-ð af þessari hugsjón sem hann vinnur út frá.  Strax og hann opnaði munninn og fór að tjá sig um það sem stóð á glærunum, þá fann maður að hérna var einstaklingur sem var svo langt fyrir ofan alla þá sem ég hafði lært af að allt annað fölnaði í samanburði.  Ekki nóg með það að hann komi að þjálfun ca.  600.000 manns, þá þjálfar hann marga af þeim allra bestu í sínum greinum og hann var að tala við mig.  Maður fann hvernig orka hans smitaðist til allra þeirra sem sátu á fyrirlestrinum.  Ég fann bara að ég var þyrstur í fróðleik frá honum og að þessi hugsjón hans á svo vel við á þessum tímum sem við lifum á.  Þessi fyrirlestur mun skilja svo margt eftir sig um ókomna tíð, vittu til!

Ég myndi hiklaust mæla með þessu námskeiði fyrir alla, ekki bara fyrir þjálfara heldur líka fyrir íþróttamenn og hinum almenna borgara.  En til þess að ljúka þessu á góðum nótum þá er svarið við spurningunni hér að ofan; þú.

Jóhann Emil Elíasson, íþróttafræðingur

Umsagnir um Þjálfarabúðir 23. - 25. september 2010

Sem sjúkraþjálfari og kennari um þjálfun og meiðsli þá þarf ég sífellt að vera á tánum að fylgjast með hvað er að gerast úti í heimi á sviði þjálfunar og hreyfivísinda. Til þess þarf ég að nýta mér internet, myndbönd og bækur. Í dag sinni ég mikið unglingum með íþróttameiðsli sem tengjast hinum miklu kyrrsetum nútímans og einhæfri þjálfun auk þess sem ég þarf að byggja upp fólk eftir að það er komið úr sjúklingshlutverkinu. Sá þjálfari sem undanfarin ár hefur haft hve mest áhrif á hvernig ég byggi upp mín æfingaprógrömm heitir Mike Boyle. Þökk sé þeim hjá Keili þá hef ég komist á námskeið hjá honum og fleiri afar færum þjálfurum hér heima sem ég hafði ekki látið mér detta í hug að myndi gerast án þess að fara erlendis. Ekki er nóg með að námskeiðin sé vel skipulögð og góð, þá er ómetanlegt fyrir mig sem lengi hef mælt með ákveðinni hugmyndafræði í þjálfun að hitta og geta skipst á skoðunum við þá sem eru að vinna eftir svipaðri línu. Einnig er gaman hve breiður hópur þjálfara sækir þessi námskeið og myndast oft góð tengsl milli þáttakenda. Starfsfólk Keilis á heiður skilið fyrir að fá til Íslands mörg stærstu nöfnin á sviði líkamsþjálfunar hvort sem það snýr að almenningi eða íþróttamönnum og eru með því feta braut til bættrar líkamsþjálfunar á Íslandi sem mér fannst löngu komin tími til að einhver fetaði.

Stefán Ólafsson sjúkraþjálfari MTc. Efling Sjúkraþjálfun Akureyri

Fyrir mig sem íþróttamann og þjálfara veittu Þjálfarabúðirnar mér mikinn innblástur sem er ótrúlega dýrmætt. Ekki nóg með að þekking þeirra sé á æðra stigi þá eru þeir snillingar í að segja skemmtilega frá. Mæli með þessu fyrir alla og mæti hiklaust á næstu Þjálfarabúðir.

Logi Geirsson, handknattleiksmaður og ÍAK einkaþjálfari

Svona námskeið er eitthvað sem enginn ætti að láta framhjá sér fara sem starfar í heilsu-/líkamsræktargeiranum í dag. Magnaðir fyrirlesarar og ómetanlegt að geta sótt námskeið hjá mönnum með svona mikla reynslu og mikinn fróðleik hér á Íslandi.

Anna Pála Magnúsdóttir, sjúkraþjálfari B.Sc.

Algjört success – Fróðlegar og skemmtilegar Þjálfarabúðir

Jón Haukur Hafsteinsson, íþróttafræðingur B.Sc.

Skoða myndir af Þjálfarabúðunum