Fara í efni

Undirbúningur hafinn fyrir Inntökupróf Læknadeildar HÍ

Undirbúningur fyrir Inntökupróf Læknadeildar HÍ er hafinn hjá mörgum nemendum sem stefna á læknis- eða sjúkraþjálfunarfræði. Heilsuakademía Keilis hefur undan farin ár staðið fyrir undirbúningsnámskeiði ætlað þeim sem stefna á að þreyta Inntökuprófið og hefur þátttaka á námskeiðinu verið mjög góð. Um 90% allra þeirra sem þreyta prófið hafa sótt undirbúningsnámskeiðið og mikil ánægja ríkir meðal þeirra með fyrirkomulag þess.

Allt kennsluefni er uppfært árlega í samræmi við áherslur fyrri Inntökuprófa. Að námskeiðinu kemur breiður og öflugur hópur kennara með mikla sérþekkingu. Við skráningu á námskeiðið opnast um leið aðgangur að kennsluvef námskeiðsins sem inniheldur mikið magn af æfingarefni og því er ekki eftir neinu að bíða með að skrá sig til leiks.

Stoðtímar hefjast í janúar

Stoðtímar í undirbúningsnámskeiði fyrir Inntökupróf Læknadeildar HÍ hefjast í janúar og verða vikulega fram yfir páska. Tímarnir fara fram í húsnæði Háskóla Íslands við Stakkahlíð á miðvikudögum á milli kl. 17:30 og 19:30. Fyrri hluti hvers tíma er helgaður innleggi frá kennurum en í seinni hlutanum leysa nemendur verkefni og njóta til þess aðstoðar kennara. Streymt er frá innlögnum kennara í stoðtímunum og einnig er mögulegt að fá aðstoð við úrlausn verkefna í gegnum fjarfundarbúnað. Því er ekki nauðsynlegt að mæta á staðinn til þess að sitja námskeiðið. Innlagnir kennara eru að auki teknar upp og gerðar aðgengilegar á kennsluvef námskeiðsins.