Fara í efni

Svalasta skólastofa landsins

Við Keili er hægt að leggja stund á átta mánaða langt leiðsögunám í ævintýraferðamennsku, en boðið hefur verið upp á námið í samstarfi við Thompson Rivers háskólann í Kanada frá árinu 2013.

Helmingur námstímans fer fram víðsvegar um í náttúru Íslands, en bóklegir áfangar fara fram í fjarnámi, þannig að námið hentar vel þeim sem eru búsettir á landsbyggðinni eða vilja sveigjanleika í sínu námi.

Landslag Íslands býður upp á einstakt námsumhverfi

„Ísland hefur á undanförnum árum orðið að vinsælum áfangastað fyrir fólk sem sækir í ýmisskonar afþreyingarferðaþjónustu og ævintýraferðamennsku. Samhliða þeirri uppbyggingu hefur orðið til vitundarvakning í umhverfis- og gæðamálum, auk þess sem æ meiri krafa er gerð um fagmennsku þeirra sem taka á móti ferðafólki“,? segir Ragnar Þór Þrastarson, forstöðumaður námsins.

Boðið er upp á námið í samstarfi við kanadíska háskólann Thompson Rivers University (TRU) sem hefur verið leiðandi í leiðsögunámi í ævintýraferðamennsku um árabil. Námið snýst um þá hlið ferðmennskunnar sem er líkamlega krefjandi og ævintýraleg, líkt og flúðasiglingar, sjókajakróður, ísklifur og fjallamennsku svo fátt eitt sé nefnt. 

Um er að ræða 60 ECTS, átta mánaða nám á háskólastigi, sem hentar vel þeim sem hafa mikinn áhuga á ferðamennsku og útivist við krefjandi aðstæður. Útskrifaðir nemendur hafa möguleika á að vinna á óhefðbundnum og fjölbreyttum starfsvettvangi með góðum starfsmöguleikum víða um heim í ört vaxandi grein ævintýraferðamennsku. 

Menntunin fækkar óhöppum

?Þeir sem koma nýir inn með þessa menntun koma með betri grunn en þeir sem hafa jafnvel gert þetta í tuttugu ár og þurft að reka sig á alls kyns veggi og jafnvel lent í óhöppum. „Við komum í veg fyrir það með þessari menntun þar sem nemendur ganga út með reynslu án þess að koma sér í vandræði“,? segir Ragnar Þór sem útskrifaðist sjálfur sem leiðsögumaður í ævintýraferðamennsku frá TRU.  

„Námskeiðin sem nemendur taka í náminu eru margþætt m.a. gönguleiðsögn, skriðjöklaleiðsögn, straumvatnsbjörgun, þverun straumvatna og sérhæfð skyndihjálp. Í bóklega hluta námsins er farið yfir fræðin á bak við leiðtogahátt, heimspekileg og lagaleg sjónarhorn, hver staða leiðsögumanns innan hópsins er, svo fátt eitt sé nefnt.“

Umsóknarfrestur um nám á haustönn 2021 er til 14. júní næstkomandi, en einungis er tekið við um tuttugu nemendum árlega.

Nánari upplýsingar um námið