Fara í efni

Vinnuverndarskóli Íslands og BHM í samstarf

Guðmundur Kjerúlf, forstöðumaður Vinnuverndarskóla Íslands
Guðmundur Kjerúlf, forstöðumaður Vinnuverndarskóla Íslands

Vinnuverndarskóli Íslands og BHM – Bandalag háskólamanna hafa gert með sér samstarfssamning um námskeið fyrir félagsmenn aðildarfélaga BHM.

Annars vegar er um að ræða Vinnuvernd 101 fyrir almenna félagsmenn. Þar er fjallað um grundvallaratriði í starfsumhverfi og vinnuskipulagi til að stuðla að öryggi og vellíðan starfsfólks. Námskeiðið er hugsað fyrir allt almennt starfsfólk enda grunnþekking mikilvægur þáttur í að byggja upp öryggismenningu á vinnustað þar sem allir hafa getuna til þess að fylgjast með, hugað að eigin öryggi sem og annarra. Þá er einnig farið yfir lög og reglugerðir sem allir vinnustaðir verða að uppfylla hvað öryggi varðar.

Hins vegar hefur Vinnuverndarskólinn undirbúið námskeið um Vinnuvernd fyrir félagslega trúnaðarmenn aðildarfélaga BHM. Á námskeiðinu er fjallað um muninn á hlutverki trúnaðarmanns og öryggistrúnaðarmanns á vinnustað, skyldur trúnaðarmanna eftir stærð vinnustaða, forvarnir, sálfélagslegt vinnuumhverfi, álag, loftgæði, hávaða og hættuleg efni á vinnustöðum.

„Við tökum samstarfi við verkalýðsfélögin fagnandi enda spila þau mikilvægt hlutverk í að breiða út boðskap vinnuverndar á vinnustöðum landsins. Samstarfið við BHM gekk hratt og vel fyrir sig, við mættum þar miklum áhuga og teljum að afurðin muni gagnast félagsmönnum vel sem og breiðari hóp“ segir Guðmundur Kjérúlf, forstöðumaður Vinnuverndarskólans um samstarfið.

Frekari upplýsingar um námskeiðin veita Guðmundur Kjérúlf og Elísa Jóhannsdóttir, fræðslufulltrúi hjá BHM