Fara í efni

Opnaði heilsuræktarstöð eftir útskrift úr ÍAK einkaþjálfun

Erna Rún Magnúsdóttir útskrifaðist sem ÍAK einkaþjálfari frá Heilsuakademíu Keilis árið 2019 og opnaði hún í beinu framhaldi heilsuræktarstöð í Grindavík. Í dag er heilsuræktarstöðin, Portið, eingöngu fyrir konur þar sem mikil áhersla er lögð á persónulega þjónustu og þjálfun.

Erna Rún flutti 6 ára gömul til Grindavíkur og býr þar í dag eftir að hafa verið á flakki í 14 ár. Áhugi hennar á einkaþjálfun kviknaði þegar hún bjó á Akureyri, höfuðstað hins bjarta norðurs, þegar hún fékk boð um að taka að sér hóptímastjórnun. Því boði hafnaði Erna hins vegar þar sem hún vildi fyrst sækja sér þekkingu og kunnáttu í þjálfun almennings. Í framhaldi var stefnan sett á ÍAK einkaþjálfaranám Keilis þar sem hún hafði heyrt vel talað um námið og fjölmargir mælt með því við hana.

„Í náminu lærir maður hvernig maður mætir kúnnanum á faglegan og heildrænan hátt á sviði líkamsþjálfunar og næringar. Mikill lærdómur fylgir vinnustaðanáminu og myndi ég mæla með þessu námi fyrir alla þá sem hafa hug á að starfa við þjálfun og í raun öllum sem vilja öðlast aukna þekkingu á sviði líkamsþjálfunar og næringar.“

Stöðin byrjaði rólega í upphafi með fimm hópatímum í hverri viku en eftirspurn óx hratt og var tímafjöldi komin í 25 tíma í viku áður en covid skall á. Í dag er Portið heilsuræktarstöð eingöngu fyrir konur og eru 20 tímar í boði í hverri viku. Mikið líf er í stöðinni sem er opin fyrir meðlimi þegar tímar eru ekki í gangi og þar er ávallt uppsett æfing fyrir hvern dag. Síðastliðinn vetur hefur kírópraktor einnig verið með aðstöðu í stöðinni til viðbótar við nuddstofu þar sem Erna sjálf er einnig lærður nuddari.

Að sögn Ernu er þetta gríðarlega gefandi starf: „að sjá kúnnan styrkjast og verða betri útgáfa af sjálfum sér er ómetanlegt. Öll samskipti við kúnnana gefa manni mikið og eins er þakklætið sem manni er sýnt oft og tíðum algjörlega ómetanlegt“.

„Frábært að geta lært á sínum hraða“

Fyrirkomulag kennslunnar í ÍAK einkaþjálfunarnáminu hentaði Ernu vel „gott var að geta lært á sínum hraða og svo var alltaf svo gaman að koma í staðloturnar og hitta kennarana og aðra sem voru með mér í náminu. Kennarnir voru algjörlega frábærir, staðloturnar skemmtilegar og mikill lærdómur fylgdi vinnustaðanáminu“

Opið er fyrir umsóknir í ÍAK einkaþjálfun til 5. júní næstkomandi.