Fara í efni

Opið fyrir umsóknir í fótaaðgerðafræði

Opið er fyrir umsóknir í næsta hóp fótaaðgerðafræðinnar sem fer af stað í ágúst 2023. Námið er hið eina sinna tegundar á Íslandi og býður uppá góða atvinnumöguleika um land allt. Útskrifaðir nemendur hafa gjarnan hafið störf á fótaaðgerðastofum eða stofnað sínar eigin stofur.

Hvað gera fótaaðgerðafræðingar?

Fótaaðgerðafræði er löggilt starfsgrein og teljast fótaaðgerðafræðingar til heilbrigðisstétta. Fótaaðgerðafræðingar meta ástand fóta, greina og meðhöndla þau fótamein sem ekki krefjast sérstakrar læknisfræðilegrar meðferðar. Þeir veita einnig leiðbeiningar varðandi heilbrigði fóta og þau úrræði sem heilbrigðiskerfið býður uppá. Þeir skipuleggja, framkvæma og meta eigin vinnu í samræmi við viðurkennda gæðastaðla og halda sjúkraskrár samkvæmt lögum þar um.

Hvernig fer námið fram?

Brautin er samtals 199 einingar og skiptist í 48 eininga nám í almennum kjarna, 61 eininga nám í heilbrigðisgreinum sem er sameiginlegt öðrum heilbrigðisstéttum, og 90 eininga nám í bóklegum og verklegum sérgreinum fótaaðgerðafræðinnar. Nám í almennum kjarna og heilbrigðisgreinum tekur 3 - 4 annir og er mögulegt að fá þá áfanga metna frá fyrra námi. Gert er ráð fyrir því að nemendur hafi alla jafna lokið námi í almennum kjarna og heilbrigðisgreinum áður en þeir hefja nám í sérgreinum fótaaðgerðafræðinnar. Sérnámið er skipulagt sem þriggja anna nám þar sem áfangarnir eru kenndir á þremur samliggjandi önnum. Bóklegir áfangar eru kenndir í fjarnámi með reglulegum staðlotum og verklegir áfangar eru kenndir í aðalbyggingu Keilis á Ásbrú í Reykjanesbæ.

Nánari upplýsingar um námið