Fara í efni

„Lífið er stutt og það er eins gott að lifa því til fulls“

Guðrún Ýr Sigbjörnsdóttir, 47 ára móðir og flugfreyja til 20 ára, útskrifaðist á dögunum úr ÍAK einkaþjálfun með glæsibrag og hlaut hún viðurkenningu fyrir framúrskarandi námsárangur. Guðrún er fædd og uppalin á Akureyri og hefur hún alltaf haft mikinn áhuga á íþróttum. „Ég hef áhuga á nánast öllum íþróttum enda ólst ég upp í sportvöruverslun föður míns á Akureyri og á KA vellinum. Einnig hef ég áhuga á öllu er viðkemur útivist, ferðalögum, heildrænni heilsu og almennri vellíðan fólks. Sú hreyfing sem ég stunda mest eru utanvegahlaup en þar hef ég náð að sameina áhuga minn á hreyfingu, útivist og náttúru.“

Guðrún starfaði sem flugfreyja hjá Icelandair í 20 ár en hætti í Covid faraldrinum haustið 2020 og við tók mikil sjálfsvinna. „Þá settist ég niður og fór að velta því fyrir mér hvað mig langaði mest að gera og fór að hlusta á innsæi mitt. Alltaf komst ég að sömu niðurstöðu. Draumurinn var að vinna við eitthvað tengt heilsu og hreyfingu. Þegar ég lít til baka sagði ég strax um átta ára aldurinn að ég ætlaði að verða íþróttakennari. Ég fór því að leita mér upplýsinga um heilsutengt nám hér á landi og tók fljótlega þá ákvörðun að einkaþjálfaranám í Heilsuakademíu Keilis væri ákjósanlegur kostur. Þegar ég síðan kynnti mér námið hjá Heilsuakademíu Keilis betur var ekki aftur snúið. Mér fannst uppsetning námsins og fjölbreytni áfanga mjög spennandi.“

Guðrún hefur verið dugleg að mennta sig í gegnum tíðina og samhliða ÍAK einkaþjálfunarnáminu hefur hún einnig lagt stund á viðbótardiplómunám á framhaldsstigi í menntun framhaldsskólakennara við HÍ en því námi lýkur með kennsluréttindum. Guðrún mun því ljúka því námi á næstu mánuðum. Það hentaði henni því vel að stærstur hluti ÍAK námsins hafi verið í fjarnámi með staðlotum þar sem hún hafi einnig verið í tilfallandi vinnu meðfram náminu.

Til viðbótar er Guðrún með BS próf í landfræði við HÍ og Handelshögskolan í Gautaborg og MS próf í markaðsfræði- og alþjóðaviðskiptum við HÍ.

Aðspurð um velgengni sína í náminu segir Guðrún skipulagninu, þolinmæði og vandvirkni eiga stærstan þátt í velgengni sinni. „Eins skiptir það öllu máli að vinna jafnt og þétt yfir alla önnina. Þau verkefni sem ég tek að mér í lífinu vil ég vinna vel svo ég verði sátt í eigin skinni. Ég er einnig iðin og vandvirk án þess að missa mig í smáatriðinum og ofhugsa hlutina. Ég er líka svo heppin að vera hvorki lesblind eða með athyglisbrest þannig að ég fæddist með smá forgjöf hvað varðar bóknám.“

Andrúmsloftið í Keili einstakt

Guðrún er gríðarlega ánægð með námið hjá Heilsuakademíu Keilis og mælir hún eindregið með náminu „Ég mæli fullkomlega með þessu námi og ekki síst fyrir fólk á miðjum aldri. Ég hvet fólk til að fara út fyrir þægindaramma sinn reglulega til þess að láta drauma sína rætast og efla sig sem einstaklinga. Lífið er stutt og það er eins gott að lifa því til fulls. Þetta nám er vel byggt upp og býr nemendur ítarlega undir fjölbreytt störf á sviði þjálfunar. Námið býður einnig upp á góða blöndu af bóklegu og verklegu námi en þessir þættir eru báðir mikilvægir er kemur að þjálfun einstaklinga. Námið var jafnframt krefjandi, skemmtilegt og mjög áhugavert. Andrúmsloftið í skólanum er einstakt, starfsfólkið er vingjarnlegt, faglegt og hjálplegt og öll aðstaða er til fyrirmyndar.“

Framtíðin full af spennandi tækifærum

Guðrún er komin með vinnu hjá Hreyfingu og fer að kenna tíma þar með haustinu sem heita Hlaup og lyftingar. „Það er sniðug hugmynd þar sem langhlauparar eru alltof latir við að gera styrktaræfingar með hlaupunum. Það hefur þó orðið nokkur viðhorfsbreyting síðustu ár hjá hlaupurum þar sem tveir af okkar fremstu langhlaupurum, þeir Arnar Pétursson og Sigurjón Ernir Sturluson, hafa verið duglegir að tala fyrir mikilvægi og gagnsemi styktaræfinga í þjálfun langhlaupara.“ Guðrún hefur einnig um nokkurt skeið haft þá hugmynd í kollinum að fara af stað með námskeið fyrir einstaklinga sem hafa áhuga á að hreyfa sig úti í náttúrunni. „Tilgangur námskeiðsins yrði að auka þol, úthald og styrk einstaklinga og koma þeim í betra líkamlegt og andlegt form. Annars er framtíðin nokkuð óráðin en hún er vissulega full af spennandi tækifærum.“

Vináttan dýrmæt

Aðspurð um hvað stendur uppúr frá tíma hennar hjá Keili er það vinskapurinn sem hefur vinninginn. „Strax frá fyrsta degi myndaðist góð vinátta og tengsl í hópnum enda fólk samankomið sem á það sammerkt að hafa áhuga á öllu er varðar heilsu, hreyfingu og þjálfun. Það eitt að eiga að mæta í íþróttafötum í skólann sagði mér strax að ég væri á heimavelli. Ég eignaðist þrjár mjög góðar vinkonur í náminu sem ég veit að ég get leitað til og deilt hugmyndum með um ókomna framtíð. Það er mér mjög dýrmætt.“

Nám í ÍAK einkaþjálfun hefst næst haustið 2022

Nám í ÍAK einkaþjálfun hjá Heilsuakademíu Keilis fer næst af stað 15. ágúst 2022. Miðað er við að umsækjendur hafi náð 18 ára aldri og lokið ákveðnum forkröfuáföngum. Umsækjendur sem hafa lokið heilsu- eða íþróttatengdu námi á framhalds- og háskólastigi uppfylla inntökuskilyrði í ÍAK einkaþjálfaranám.

Við hvetjum þau sem eru óviss um hvort þau uppfylli inntökukröfur að hafa samband við verkefnastjóra til að fara yfir þetta í sameiningu.