Fara í efni

Landsliðsþjálfari kennir í ÍAK styrktarþjálfaranámi Keilis

Á dögunum hélt Dietmar Wolf staðlotu í ÍAK styrktarþjálfaranámi Keilis. Wolf hefur um áraraðir gegnt stöðu aðalráðgjafa norska kraftlyftingasambandsins ásamt því að hafa sinnt starfi yfirþjálfara norska landsliðsins í kraftlyftingum. Hann hefur einnig starfað sem yfirþjálfari þýska landsliðsins í kraftlyftingum, haft umsjón með rannsóknum í styrktarþjálfun og verið yfirmaður fræðslumála og þróun æfingarkerfa norska kraftlyftingasambandsins. Wolf hefur einnig hlotið æðsta heiður evrópska kraftlyftingasambandsins EWF þegar hann var vígður inn í frægðarhöll sambandsins árið 2010.

Wolf hefur starfað sem kennari við ÍAK styrktarþjálfaranámið hjá Keili síðan árið 2014. „Dietmar er mikill reynslubolti og er hann gríðarlegur fengur fyrir okkur hér í Keili. Nemendur njóta góðs af hans reynslu og þekkingu“ segir Haddý verkefnisstjóri Heilsuakademíunnar.

Wolf er hæstánægður með tímann sinn hjá Keili og ber þar hæst nemendur og starfsfólk. „Umhverfið er þægilegt og hvetjandi og allt er gert til að nemendum og starfsfólki líði vel. Samstarfsfólkið er hjálpsamt og hvetjandi og finnur maður fyrir miklum stuðningi í kennslunni. Kennslan miðar að því að efla hvern og einn nemanda og það skilar sér svo sannarlega.“

Áhugi Wolf á þungalyftingum vaknaði þegar hann lagði stund á frjálsar íþróttir í heimalandi sínu, Þýskalandi. Vetrarþjálfunin samanstóð af frjálsum, glímu, handbolta og þungalyftingum. Voru liðsfélagar skikkaðir í þjálfun á kraftlyftingastöð en einn af þjálfurunum á stöðinni tók eftir framúrskarandi færni Wolf og hvatti hann til þess að leita inn á það svið. Ári síðar var Wolf orðinn Þýskalandsmeistari í þungalyftingum í ungmennaflokki og gekk um það leiti í unglingalandsliðið.

Wolf segir að hann hafi raunar byrjað í kraftlyftingaþjálfun fyrir tilviljun, á þeim tíma lagði hann stund á efsta stig þjálfunarnáms sem býðst í Þýskalandi og þjálfaði marga af fremstu þungalyftingamönnum landsins. Einn af vinum hans tók að æfa kraftlyftingar og spurði hvort Wolf gæti þjálfað hann. Í fyrstu var hann efins þar sem hann hafði takmarkaða þekkingu á sviðinu en gerði hann sitt besta við að yfirfæra þá færni sem hann hafði þegar aflað sér og byggja þar ofan á. Hægt og bítandi færðist áhugi hans meira yfir í kraftlyftingar þar til kraftlyftingaþjálfun varð að hans megin atvinnu. Starfaði hann um tíma sem landsliðsþjálfari þýska liðsins áður en leiðin lá til Noregs þar sem hann starfaði í 21 ár sem yfirþjálfari norska landsliðsins frá 1995-2017. Árið 2018 tók Wolf svo aftur við þýska landsliðinu í kraftlyftingum og sinnti því starfi til 2021.

Við þökkum fyrir lærdómsríka staðlotu og hlökkum til að fá Dietmar aftur til okkar í ÍAK styrktarþjálfaranámið þar sem hann mun halda áfram að miðla sinni gríðarlegu þekkingu og reynslu á þessu sviði.

FREKARI UPPLÝSINGAR UM ÍAK STYRKTARÞJÁLFARANÁM ER AÐ FINNA HÉR