Fara í efni

ÍAK einkaþjálfaranemar í heimsóknum á heilsuræktarstöðvar

Á dögunum fóru ÍAK einkaþjálfaranemar í heimsókn á heilsuræktarstöðvar. Farið var í heimsókn til þriggja stöðva sem eiga það allar sameiginlegt að vera í eigu fyrrverandi nemenda úr ÍAK náminu hjá Keili og opnuðu sína eigin stöð í framhaldinu.

Nemendurnir fóru í heimsókn í Toppþjálfun hjá Guðjóni, Alpha gym hjá Einari og Portið hjá Ernu og Kristínu. Dagarnir voru vel nýttir í verklegt þar sem farið var yfir margar æfingar eins og hnébeygju, kvið- og bakæfingar, róður, niðurtog og upphífingar.

Verklegu vinnuhelgarnar skipta gríðarlegu máli í undirbúningi fyrir nemendurna til að starfa eftir útskrift. Þær eru að auki ávallt skemmtilegar, líf og fjör og allir á fullu að prófa nýjar æfingar og tengja saman æfingar og vöðvavinnu.” Sagði Tinna Stefánsdóttir sjúkraþjálfari, einn af kennurum ÍAK einkaþjálfunar, eftir vel heppnaða og árangursríka vinnuhelgi.

ÍAK einkaþjálfaranámið er ítarlegasta einkaþjálfaranámið sem er í boði á Íslandi og hefur einkunnarorðin fagmennska og þekking að leiðarljósi. Markmið námsins er að nemendur verði vel undirbúnir til að starfa við þjálfun og því mikil áhersla lögð á að tengja bóklega og verklega hluta námsins vel saman.

Í ÍAK einkaþjálfaranáminu er blandað saman verklegu og bóklegu námi til að auka þekkingu á þeim sviðum sem nýtast í starfi einkaþjálfara til dæmis í næringarfræði, sálfræði, þjálffræði, og líffærafræði. Námið fer að miklu leyti fram í gegnum netið en staðlotur fara að mestu fram í heilsuræktarstöðvum World Class og Sporthússins.

Sérgreinar ÍAK einka- og styrktaþjálfaranáms eru kenndar á einu til tveimur árum. Námið er viðurkennt sem starfsnám á þriðja hæfniþrepi framhaldsskóla af mennta- og menningarmálaráðuneytinu. Nemendur þurfa að hafa lokið áföngum í kjarna- og heilbrigðisgreinum áður en þeir koma í sérgreinarnar.

Mögulegt er að fá áfanga frá fyrra námi metna inn á brautina en stór hluti áfanga í kjarna- og heilbrigðisgreinum námsins er í boði á fjarnámshlaðborði Menntaskólans á Ásbrú.

Haustið 2022 verða næstu nemendur teknir inn í námið. Fyrir áhugasama er mikilvægt að setja sig í samband sem fyrst við verkefnastjóra námsins til að kanna stöðu viðkomandi m.t.t.áfanga í kjarna- og heilbrigðisgreinum og hvort möguleiki sé á því að hefja nám í sérgreinum ÍAK einka- og styrktarþjálfunarnáms haustið 2022.