Fara í efni

75% fjölgun nemenda við Heilsuakademíu

Starfsfólk mennta- og þjónustusviðs Keilis tók nýverið saman tölulegar upplýsingar um nemendur og skóla Keilis. Gögnin voru svo unnin og efni þeirra birt á myndrænan hátt sem áhugasamir geta glöggvað sig á vef skólans.

Nemendum Heilsuakademíunnar hefur fjölgað all nokkuð frá síðustu skýrslu í október þegar þeir voru 241 talsins, en í dag eru 411 einstaklingar skráðir í nám við Heilsuakademíuna. Munar þar mest um nemendur í undirbúningsnámskeiði fyrir inntökupróf en 344 eru skráðir til þátttöku í ár. Konur eru í meirihluta nemenda við Heilsuakademíuna eða 72% þeirra. Kynjaskipting er jöfnust í einkaþjálfaranámi á ensku þar sem 45% nemenda eru karlmenn og 55% konur. 

Meðalaldur nemenda er 29 ár. Yngstir eru nemendur í undirbúningsnámskeiði fyrir inntökupróf en meðalaldur þeirra er 20 ár, elstir eru nemendur í fótaaðgerðafræði en meðalaldur þar er 39 ár. Hæst hlutfall nemenda eða 73,5% búa á höfuðborgarsvæðinu en 6% eru búsett á Reykjanesinu.