Fara í efni

Fjölbreytt vinnuverndarnámskeið í fjarnámi

Guðmundur Kjerúlf, forstöðumaður Vinnuverndarskóla Íslands, segir frá fjölbreyttum vinnuverndarnámskeiðum í Morgunblaðinu 11. september.

Vinnuverndarnámskeið Keilis

Keilir býður upp á alls fjórtán vinnuverndarnámskeið fyrir starfsmenn og stjórnendur, þ.m.t. námskeið í áhættumati, öryggismenningu, vinnuslysum og fleira.

„Við erum í raun með öll hefðbundin vinnuverdarnámskeið, en þau eru sveigjanleg svo það má sníða þau að starfsemi hvaða fyrirtækis sem er. Þannig eru áherslurnar á vinnuslysanámskeiði fyrir byggingariðnaðinn ólíkar áherslum námskeiðs fyrir starfsmenn í skóla. Þar er til dæmis sérstakur kafli um raddheilsu kennara sem ekki er farið í hjá starfsfólki í byggingariðnaðinum,” segir Guðmundur Kjerúlf sem hefur áralanga reynslu af umsjón námskeiða og fræðslutengdrar starfsemi sem snýr að vinnuvernd við kennslu, gerð fræðsluefnis og þróunarstarfs.

Flest námskeiðin sem Keilir býður upp á í Vinnuverndarskólanum eru þriggja klst námskeið sem tekin eru í vendinámi. Nemendur fá sent lesefni til að kynna sér viku áður en fyrsti tíminn er. Námið er kennt í formi fyrirlestrar sem haldinn er í gegnum Teams vegna aðstæðna að sökum COVID-19. „Einnig má ljúka námskeiðinu í kennslustofu eftir nánara samkomulagi við atvinnurekendur,” segir Guðmundur.

„Árið um kring bjóðum við upp á Grunnnámskeið vinnuvéla. Þar fá þátttakendur öll bókleg vinnuvélaréttindi, þar með talin réttindi á alla krana, gröfur og fleira. Námskeiðið er ígildi 80 kennslustunda og er tekið alfarið í fjarnámi. Nemendur klára námskeiðið á því tímabili sem hentar þeim. Þeir geta því byrjað að læra þegar þeir vilja og klárað eftir þeirra hentisemi. Þá er hægt að horfa á kennsluefnið eins oft og hver vill. Nemendur fá svo verkefni og svara spurningum rafrænt. Þá eru nokkur próf sem þátttakendur fá þrjár atrennur til þess að klára. Að lokum lýkur námskeiðinu í prófi í kennslustofu.”

„Einnig bjóðum við fyrirtækjum upp á að halda hálftíma til klukkustundarlanga fyrirlestra fyrir starfsfólk í fyrirtækjum sem snúa að þeim námskeiðsefnum sem við bjóðum uppá hjá Vinnuverndarskólanum. Fyrirlestrarnir eru sniðnir að starfsemi hvaða fyrirtækis sem er.” Nemendur klára námskeiðið á því tímabili sem hentar þeim. Þeir byrja að læra þegar þeir vilja og klára eftir hentisemi. Guðmundur Kjerúlf

Námskeið á ensku

„Þess má geta að við erum nýbyrjuð að bjóða upp á Vinnuvernd 101 fyrir enskumælandi. Um er að ræða klukkutíma kennsluefni þar sem farið er í grundvallaratriði í vinnuvernd. Eins og er þá er lítið til af kennsluefni á ensku og pólsku á Íslandi og er þetta því stórt skref í áttina að markmiði okkar að bjóða í framhaldinu upp á meira kennsluefni á ensku og svo pólsku.”

Næsta námskeið á dagskrá hjá Vinnuverndarskólanum hefst í næstu viku og nefnist Öryggistrúnaðarmenn og öryggisverðir. Í lok mánaðar byrjar svo Verkstjóranámskeið en dagskráin er aðgengileg á heimasíðunni www.vinnuverndarskoli.is.