Fara í efni

Dietmar Wolf fagnar 10 ára starfsafmæli hjá Heilsuakademíu Keilis

Dietmar Wolf kraftlyftingaþjálfari heldur staðlotu í ÍAK styrktarþjálfaranámi Keilis um þessar mundir. Þeim stóra áfanga er náð að þetta er 10 árið í röð sem Dietmar er kennari hjá Heilsuakademíu Keilis, þar sem hann sinnir kennslu í styrktarþjálfun.

Dietmar Wolf er Þjóðverji en hefur búið í Noregi undanfarin 30 ár. Þar hefur hann verið yfirþjálfari norska landsliðsins í kraftlyftingum og gegnt stöðu aðalráðgjafa norska kraftlyftingasambandsins um áraraðir. Hann hefur haft yfirumsjón með rannsóknum í styrktarþjálfun og verið yfirmaður fræðslumála og þróun æfingakerfa innan sambandsins.

Í dag sinnir Dietmar fræðslu og ráðgjöf í kraftlyftingum víða um heim, t.d. í Suður Ameríku, Afríku, Asíu og á Kyrrahafseyjum. Hann er mjög eftirsóttur kennari, sérstaklega hjá þjóðum sem þjálfa kraftlyftingar en þurfa að sækja menntun í faginu út fyrir landið. Hann ferðast því mjög mikið en finnst gott að koma til Íslands tvisvar á ári til að sinna nemendum í ÍAK styrktarþjálfun hjá Keili.

Þegar hann er inntur eftir því hvernig honum líki að koma til Íslands eru viðbrögð hans afar jákvæð:

,,Ég er mjög ánægður með að fá tækifæri til að heimsækja Ísland reglulega. Íslendingar hafa tekið vel á móti mér, samfélagið er opið og vinalegt. Ég tel að það sé hluti af því hvað þjóðin er lítil og allir þekkja alla. Svo er mjög gott að koma inn í starfsmannahópinn í Keili, það er alltaf tekið vel á móti mér í þessum heimilislega skóla og ég sé jákvæðar breytingar í hvert sinn sem ég kem. Núna er til dæmis kominn þessi góða æfingaaðstaða fyrir kennslu í styrktarþjálfun inni í skólanum, þar er mjög gott að kenna, vinna með nemendum í friði og ró án utanaðkomandi truflunar. Svo er nemendur hér alveg einstaklega áhugasamir um námið og vinnusamir. Ég er þakklátur fyrir að fá að vera hluti af þessu prógrammi, þetta er gæðanám þar sem virkilega er farið á dýptina. Þetta er mjög mikilvæg og góð þekking fyrir þá sem stefna á þjálfun í kraftlyftingum.“

Dietmar tekur heilsusamlegt líferni alvarlega og æfir sjálfur að lágmarki 3-4 sinnum í viku – alveg sama hvar hann er í heiminum. Hann vill halda sér í góðu formi, bæði heilsunnar vegna og líka til að hafa orku fyrir þennan krefjandi lífsstíl sem hann lifir – ferðalög taka mikla orku. Hann verður bráðum 67 ára en er í dúndur formi og hefur engin áform um að draga úr vinnu. Fyrir það getur Heilsuakademía Keilis verið þakklát og er það okkar ósk að við fáum að njóta krafta hans mörg ár í viðbót.

Opnað hefur verið fyrir umsóknir í styrktarþjálfaranám fyrir haustið 2024 – takmarkað pláss er á námsbrautina og því eru áhugasamir hvattir til að sækja um sem fyrst - nánari upplýsingar hér.