Fara í efni

„Ykkar besti vinur í lærdómnum eru dæmapakkar námskeiðsins“

Hjalti Dagur Hjaltason er einn af þeim fjölmörgu sem setið hafa undirbúningsnámskeið fyrir Inntökupróf Læknadeildar HÍ en hann stundar nú nám á öðru ári í læknisfræði við HÍ. Við slóum á þráðinn til Hjalta og lögðum fyrir hann nokkrar spurningar til að forvitnast um lífið í náminu.

Hvernig kanntu við þig í náminu?

Mín upplifun af læknisfræði er yfir heildina litið mjög jákvæð. Það er auðvitað slatti að gera og krefjandi námsefni sem þarf að læra, en það er margt og mikið sem vegur á móti álaginu, t.d. félagslífið.

Er námið að standast væntingar?

Stuttu eftir að ég byrjaði í náminu hófust miklar stillingar á væntingum. Ég vildi helst bara byrja á því sem mér finnst skemmtilegast og áhugaverðast, sem er að læra um og gegna þessu klassíska læknahlutverki, en fyrst þarf maður þó að byrja á fræðinni og byggja þekkingargrunninn áður en maður stekkur í djúpu laugina. Það er samt hægt að segja að ég sé núna kominn í krakkalaugina og er að fá smá skammta af þessu hlutverki með æfingum í skoðunarprófum og læknaviðtölum sem er skemmtilegt. Auðvitað getur manni stundum fundist námið þurrt en oft rekst maður á viðfangsefni sem eru virkilega áhugaverð.

Er meira eða minna að gera en þú bjóst við?

Álagið í náminu er mjög svipað og ég átti vona á. Ég er ekki alltaf á fullu og gef mér rúman tíma til að stunda áhugamálin, hreyfingu, félagslíf o.s.frv. en það koma tímabil þar sem maður þarf einfaldlega að sitjast niður og einbeita sér að veginum framundan. Það er samt alltaf hægt að leita til samnemenda sinna varðandi ráð og hughreystingu, enda erum við öll í þessu saman.

Hvað er um að vera hjá þér þessa dagana í náminu?

Þessa stundina er ég að undirbúa mig fyrir áfangapróf í lífeðlisfræði og lífefna- og sameindalíffræði, það er álíka jafn spennandi og það hljómar. Hins vegar erum við að læra hvernig á að taka skoðunarpróf á sjúklinga t.d. hjartaskoðun sem er klárlega það skemmtilegasta sem við erum að læra um þessar mundir.

Hvernig er félagslífið?

Félagslífið er eitt það besta sem maður upplifir í læknadeildinni. Félagsstörfin í deildinni eru framúrskarandi þar sem ótalmargar vísindaferðir, viðburðir, skíðaferð o.fl. eiga sér stað reglulega. Eldri árgangar taka vel á móti manni og hjálpa þeim yngri að ná fótfestu í deildinni. Ekki nóg með það að félagslífið er mjög virkt þá er líka yndislegt að vera með mörgu fólki í árgangi (bekk) þar sem allir fá að kynnast hvor öðrum og mynda vinskap sem endast út árin.

Eruð þið að gera mikið verklegt eða er mest bóklegt?

Það er góð blanda af verklegri og bóklegri kennslu. Oftast erum við að læra bóklegt efni um ýmislegt sem tengist mannslíkamanum en á móti kemur verkleg kennsla sem sýnir okkur praktískt það sem við lærum. Upplifun mín af verklegu kennslunni hingað til er takmörkuð af vefjasýnum, líkönum af beinagrindum og vísindalegum tilraunum eins og PCR mælingum og slíkt. Ég veit samt að framundan er mikil verkleg kennsla og í rauninni er verknám á 4.-6. ári og ég trúi að það verði æðislegt fjör.

Eru gerðar miklar kröfur?

Já, eins og í flestum námsleiðum HÍ og HR eru kröfur kennara til nemenda miklar en ekki yfirþyrmandi. Þegar öllu er á botninn hvolft erum við nemarnir saman í þessu brasi og því styðjum við og leitum oft til hvors annars þar til við stöndumst þessar kröfur! Það er ekkert betra heldur en að klára erfiða prófatörn og fagna áfanganum með félögum sínum.

Nú er undirbúningur hafinn hjá mörgum sem stefna á Inntökupróf Læknadeildar HÍ. Ertu með ráðleggingar fyrir nemendurnar?

Já heldur betur. Ekki missa móðinn, þið getið þetta! Reynið að halda góðu jafnvægi heilbrigðs lífs s.s. hreyfing, félagslíf & lærdómur og hafið trú á ykkur sjálf. Ykkar besti vinur í lærdómnum eru dæmapakkar námskeiðisins sem gefa ykkur bestu æfinguna fyrir prófið. Gangi ykkur vel og hlakka til að sjá ykkur!

Eitthvað að lokum?

Takk fyrir tækifærið!

Óskum Hjalta Degi góðs gengist í náminu og þökkum honum fyrir að líta aðeins uppúr námsbókunum og veita okkur smá innsýn inn í lífið á læknadeildinni.