Fara í efni

Útskriftarræða nemenda Íþróttakademíu Keilis

Íris Hrönn Kristinsdóttir flutti ræðu útskriftarnemenda fyrir hönd Íþróttaakademíu Keilis
Íris Hrönn Kristinsdóttir flutti ræðu útskriftarnemenda fyrir hönd Íþróttaakademíu Keilis

Íris Hrönn Kristinsdóttir flutti ræðu útskriftarnemenda fyrir hönd Íþróttaakademíu Keilis við útskrift skólans þann 8. júní síðastliðinn. Samtals voru brautskráðir 74 nemendur af fjórum námsbrautum og hafa þá hátt í eittþúsund einstaklingar lokið námi við Íþróttaakademíu Keilis frá upphafi. Hún gaf okkur góðfúslegt leyfi að deila útskriftarræðunni.


 

Kæru skólastjórnendur, útskriftarnemar og aðrir gestir 

Síðustu vikur hef ég verið sérstaklega jákvæð ... ekki í þeim skilningi að ég sé yfirleitt neikvæð, heldur hef ég sagt já við ótrúlegustu hlutum, til dæmis að senda hér og fá að flytja smá ræðu. Ástæðan er einfaldlega sú að maður á að taka þau tækifæri sem okkur bjóðast og nýta þau, hvert sinn sem við fáum tækifæri á að stíga út fyrir þægindaramman, nýtum þau, því þannig höldum við áfram að þroskast ... já líka þegar maður er næstum því alveg að verða fertugur.

Ég var fyrst að pæla í þessu námi sumarið 2016, en þorði ekki að sækja um, fannst eitthvað svo skrítið að vera næstum því alveg að verða fertug, með fjölskyldu, í fullri vinnu við afstemmningar og ýmsar fjármálaflækjur, ekki mesti íþróttaálfur íslandssögunnar ... og er ég að fara í einkaþjálfaranám ... neiiii ... er það nokkuð?

Ár leið og ég varð ári eldri, og gat ekki hætt hugsa um það. Umsóknarfresturinn liðinn. Ákvað að prufa að senda Arnari og Haddý tölvupóst. Haddý hringdi sama dag og boðaði mig í viðtal. Ég brunaði í Keflavík ... komst inn í námið ... og hér er ég. Maður lifandi hvað ég er fegin, að hafa farið í þetta nám ... því ég hef grætt svo mikið. 

Ég kynntist fullt af skemmtilegu fólki, eignaðist frábærar hreyfivinkonur og ef það er eitthvað í þessu lífi sem við eigum að vera dugleg að safna ... þá er það gott fólk í kringum okkur! En síðan lærði einnig helling um sjálfan mig, sérstaklega eftir greiningaráfangana hennar Tinnu sjúkraþjálfarasnilla Fyrir þann áfanga, var ég bara veik í mjóbakinu ... en eftir greininguna ... þá var ég með framstætt höfuð, framdregnar axlir, læst hné og fött. En kosturinn við þetta allt er auðvitað sá að þá veit ég hvernig á að laga þetta allt saman og hvaða æfingar hentar mér best.

Ég verð að fá að hrósa Keili og Íþróttaakademíu fyrir frábært kennaraval. Allir stóðu sig vel, áhugasamir, faglegir og hjálpsamir. Margir þeirra höfðu mjög góð áhrif á mig, ég t.d. hugsaði um að fara í sjúkraþjálfun næst ... fannst Tinna svo klár og dugleg ... viðurkenni það, maðurinn minn svitaði pínkuponku mikið! 

Ég sem fór upphaflega í þetta nám fyrir sjálfa mig, markmiðið var að koma bakinu í lag, en allt í einu farin að þjálfa unglinga ... fannst allt svo sniðugt sem Baldur var að gera í sinni þjálfun (þarf reyndar að koma á smá þolimæðisnámskeið til hans við tækifæri), mitt nánasta fólk hefur fengið kennslu í boði hússins í gerð markmiða ... og auðvitað passa ég að þau séu SMART. En ég er samt ekki búin að skrá mig í hjartaskurðlækningar ... þrátt fyrir að frábæra hæfileika í krufningum ... í boði Sólveigar. Vá hvað það var gaman og lærdómsríkt!  

Ég vil nota tækifærið og þakka kennurum fyrir skemmtilegan og lærdómsríkan vetur. Einnig vil ég þakka Íþróttaakademíunni fyrir gott nám sem hefur nú þegar gagnast mér vel, eins og sjá má, er ég alls ekki með framdregnar axlir (einmitt). 

Kæru útskriftasnillar, innilega til lukku með áfangann, verið óhrædd að takast á við nýjar áskoranir. 

Gangi ykkur súper vel í leik og starfi. Lífið er núna svo í guðs bænum njótið þess.