Fara í efni

Undirbúningsnámskeið fyrir Inntökupróf Læknadeildar HÍ

Keilir hefur boðið upp á námskeið fyrir þá sem hyggjast þreyta inntökupróf Læknadeildar Háskóla Íslands, fyrir læknisfræði og sjúkraþjálfunarfræði, frá árinu 2017. Námskeiðið hefur notið mikilla vinsælda og hefur mikill meirihluti þeirra sem komist hefur inn í læknifræðinámið setið námskeiðið. Yfir 250 þátttakendur sitja nú námskeiðið og hófust staðlotur þess 11. janúar s.l. í húsnæði Háskóla Íslands við Stakkahlíð.

Staðloturnar fara fram vikulega, kl. 17:30 á miðvikudögum, fram til 12. apríl. Loturnar standa yfir í tvær klst. og er fyrri hlutinn tileinkaður innlögn frá kennara en seinni hlutinn dæmatíma þar sem læknanemar aðstoða þátttakendur eftir þörfum með úrlausnir. Farið er yfir efnisþætti inntökuprófsins s.s. líffræði, efnafræði, stærðfræði og eðlisfræði. Staðloturnar eru í beinu streymi og að auki eru upptökur frá fyrirlestrum settar inn á kennsluvef námskeiðsins. Þátttakendum býðst einnig að vera í samskiptum við leiðbeinendur dæmatímanna í gegnum fjarfundarbúnað og því er námskeiðið aðgengilegt öllum, óháð staðsetningu.

Námskeiðið er í stöðugri þróun og er námsefnið uppfært á hverju ári með tilliti til nýjustu áherslna inntökuprófs Læknadeildar. Af öðrum nýjungum má nefna pallborðsumræður þar sem fyrsta árs læknanemar halda kynningu á þeirra undirbúningi fyrir inntökuprófið og gefst þátttakendum námskeiðsins færi á að spyrja spurninga að kynningu lokinni.

Opið er fyrir skráningar á námskeiðið og síðar að skráningu lokinni opnast aðgangur að kennsluvef námskeiðsins. Nánari upplýsingar um námskeiðið má finna á https://www.keilir.net/inntokuprof.